Miðnæturíþróttamót unglingadeilda KFUM og KFUK var haldið í Vatnaskógi 30. október – 1. nóvember. Rúmlega 70 unglingar tóku þátt í mótinu ásamt leiðtogum. Dagskráin hófst með kvöldmat á föstudagskvöldi og eftir það var valfrjáls tími til miðnættis þar sem unglingarnir völdu úr miklu úrvali íþrótta og ekkiíþrótta. Á miðnætti var samverustund þar sem farið var í leiki og sr. Guðni Már Harðarson hafði hugleiðingu.

Eftir miðnæturhressingu í matskála hélt dagskrá áfram fram eftir nóttu. Meðal helstu dagskráratriða var körfubolti, fótbolti, borðtennis, þythokký, bandý, langstökk, limbó, förðun, döðluskyrp, dagblaða- og cherioslistaverkagerð, prjón, tölvuleikir og uno.

Laugardagsmorguninn réði svefninn ríkjum til kl. 11.30 og eftir pizzuveislu og frágang var samverustund þar sem veittar voru viðurkenningar og sr. Sigurður G. Sigurðsson hafði hugleiðingu. Að því loknu héldu þreyttir og ánægðir unglingar heim á leið.