Á morgun kl. 15:30 munu þakkarbænir þátttakenda í starfi KFUM og KFUK stíga til himins í orðsins fyllstu merkingu. Í bænavikunni hafa æskulýðsfulltrúar og sjálfboðaliðar í deildastarfinu safnað saman þakkarbænum frá krökkunum á litla miða sem hengdir verða neðan í helíumfylltar blöðrur. Á morgun verður táknræn athöfn þar sem blöðrunum verður sleppt og verða það krakkar af leikskólanum Vinagarði og stelpur úr KFUK í Lindasókn sem taka þátt í að sleppa blöðrunum. Það er mikilvægt á erfiðum tímum að muna allt það sem við höfum og getum verið þakklát fyrir. KFUM og KFUK vill með þessum atburði beina sjónum okkar að öllu því jákvæða sem okkur hefur verið gefið.