Hið góða fyrirheit
Ritningarlestur: Jer. 33:14-16
Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort.
Kom blessuð, ljóssins hátíð, – helgi þín
minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli,
svo máttug verði’ og heilög hugsun mín
og hörpu mína Drottins andi stilli
Ó, send mér, Guð minn, geislabrot í nótt,
er glóir stjarna þín í bláu heiði,
sem gefur barni veiku viljaþrótt
að vinna þér á hverju æviskeiði.
Mig vantar styrk í kærleik, kraft í trú,
og kristilega auðmýkt barnsins góða.
En veikleik minn og breyskleik þekkir þú
og þrá míns hjarta, bænarmálið hljóða.
Ó, gef mér kraft að græða fáein sár,
og gjörðu bjart og hreint í sálu minni,
svo verði’ hún kristalstær sem barnsins tár
og tindri’ í henni ljómi’ af hátign þinni.
Ó, gef mér barnsins glaðan jólahug,
við geisla ljósadýrðar vært er sofnar.
Þá hefur sál mín sig til þín á flug,
og sérhvert ský á himni mínum rofnar.
(Sb 77 Guðmundur Guðmundsson)
Minnisvers: Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til. (2. Kor 5:17)