Vika vonarinnar

Ritningarlestur: Jes 40:1-11

Fyrsta vikan í aðventunni er nefnd Vika vonarinnar. Það er spádómskertið á aðventukransinum sem leiðir okkur inn í vikuna en vonin endurspeglast einmitt í spádómunum um komu Frelsarans.
Fyrstu orðin í spádómi Jesaja um komu Messíasar (sem við lásum í gær) eru „Sú þjóð sem í myrkri gengur, sér mikið ljós.“ (Jes.9:1). Mennirnir gengu í myrkri. Syndin hafði fjarlægt þá frá Guði, myndað óbrúanlega gjá í sambandi þeirra við Guð og mennirnir þjáðust fyrir syndina. En Guð hafði ekki gleymt þeim. Í miðjum þjáningunum gaf Guð mönnunum fyrirheit um Messías, barn sem myndi fæðast í heiminn og vera „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir og Friðarhöfðingi. (Jes.9:5). Þetta eru stór orð og því ekki skrýtið að Gyðingar hafi séð fyrir sér að Messías kæmi ríðandi inn í Jerúsalem sem stríðshetja og höfðingi. En fyrr í versinu segir „Því barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. (Jes.9:5). Jesú kom sem barn, hann ólst upp og gekk í gegnum alla þá reynslu sem mennirnir reyna og því þekkir hann af eigin raun hvernig það er að vera maður. Kærleikur hans og umburðarlyndi sem hann sýndi einnig hinum minnstu og ómerkilegustu á meðan hann gekk um hér á jörðu og kenndi er okkur fyrirmynd enn í dag. Hann færði líf sitt sem fórn fyrir okkur og brúaði gjánna á milli Guðs og manna sem myndast hafði með syndinni. Þegar erfiðleikar steðja að og okkur finnst sem myrkrið muni yfirtaka okkur er gott að minnast vonarinnar og orða Jesaja spámanns: „Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós“. Jesús hefur brúað gjánna, hann er okkur ljós á hverjum degi og hann þekkir okkur og áhyggjur okkar.

Minnisvers: Því af náð eruð þið hólpin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. (Ef 2:8)