Spádómakertið

Ritningarlestur: Jes. 9:1-6 (Spádómurinn um komu Messíasar)

Við kveikjum einu kerti á,
hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.
(Lilja Kristjánsdóttir)

Í gær kveiktum við á fyrsta kertinu í aðventukransinum, Spádómakertinu. Spádómakertið minnir okkur á spádóma Gamla testamentisins sem spá fyrir um komu Krists. Spádómarnir færðu mönnunum von og markar kertið upphaf viku vonarinnar (fyrsta vika aðventunnar).
Sá spámaður sem einna oftast er vitnað til um komu Krists er Jesaja spámaður en einnig er spáð fyrir um komu Messíasar í Míka, Daníelsbók og Sálmunum.

Spádómarnir um komu Messíasar voru mönnunum mikilvægir vegna þess að þeir boðuðu einingu milli Guðs og manna á ný, einingu sem syndin hafði eyðilagt. Í dag er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að muna þessi fyrirheit Guðs sem rættust í Jesú Kristi. Við göngum nú inn í aðventuna, tíma sem mörgum finnst því miður einkennast af álagi og önnum. En gleymum því ekki að við erum að undirbúa fæðingarhátíð Frelsarans, gleðjumst yfir fyrirheitinu og gefum okkur tíma til þess að njóta aðventunnar, njóta samvista við okkar nánustu, og mikilvægast af öllu að njóta samvista við Guð sem færði okkur vonina.

Minnisvers: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3:16)