1. Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi.

2. Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk, án manngreinarálits.

3. Allir menn, sem vinnu stunda, skulu bera úr býtum réttlátt og hagstætt endurgjald, er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi lífskjör. Þeim ber og önnur félagsleg vernd, ef
þörf krefur.“ (Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, 23. grein.)

4. DAGUR: RÉTTURINN TIL MANNSÆMANDI VINNU

Ritningarlestur: Mattteus 20.1-16
„Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir“ (Matt 20.16).

Hér er sagt frá húsbónda, þó að oftar sé dæmisagan kennd við verkamennina í víngarðinum. Og húsbóndinn er vitaskuld Guð. Í augum Guðs er vandinn fólginn í því, að við kvörtum of mikið. Við erum vanþakklát fyrir það sem við munum þiggja, og þegar sá sem við hlið okkar stendur ber meira úr býtum en hann á skilið möldum við enn meira í móinn, uppfull af sjálfsréttlætingu okkar.
En Guð starfar ekki eftir okkar reglum. Náð Guðs rúmast ekki innan okkar hugmynda um að verðskulda eða vinna sér inn. Guð er ekki bundinn af sáttmálum um réttlát viðskipti eða kjarasamningum stéttarfélaga. Dómar Guðs lúta ekki eftirliti Vinnumálastofnunar. Náð Guðs er útdeilt af örlæti, sem er meira en svo, að við fáum skilið.
[Í þessari dæmisögu] er Jesús að tala um raunverulegt fólk í hinum raunverulega heimi. Hann kom sjálfur úr stétt bænda svo að hann vissi vel hvað það var að lifa við fátæktarmörk, í landi sem stjórnað var af óvinaher og landstjórum hans, sem mjólkuðu íbúana um hverja krónu og hvert uppskorið aldin, sem til var. Og hann þekkti líka líf daglaunamannsins einum of vel. Daglaunamenn áttu undir högg að sækja í samfélaginu. Fyndu þeir sér ekki vinnu, urðu þeir að betla á götum úti, eða ganga í ræningjaflokk. Þegar menn fylltu þennan flokk minnkuðu lífslíkur þeirra geigvænlega. Denarinn sem þeir fengu greiddan fyrir dags vinnu átti að framfleyta þeim í einn dag, en vinnan var bundin árstíðunum, einkum sáningar- og uppskerutímum. Mestan hluta ársins sultu þeir því heilu hungri.
Við þekkjum úr öðrum hlutum í boðskap Jesú, að samúð hans var djúp í garð þeirra, sem fátækastir voru hinna fátæku. Þeirra er himnaríki. Hinir síðustu verða fyrstir. Sælir eru þeir, sem minnst hafa. Eigi dæmisagan að vera í samhljómi við aðra hluta guðspjallanna hlýtur hún að eiga að fjalla að minnsta kosti jafnmikið um verkamennina eins og um húsbóndann.
Hvað segir hún þá um þá? Þeir deila mikið, það er óeining í röðum þeirra, en þannig vill húsbóndinn einmitt hafa þá, vegna þess að þannig getur hann valið á milli þeirra eftir hentugleikum og greitt þeim kaup að eigin geðþótta. Og þess háttar óeining brýtur niður. Þegar óeining er á meðal þeirra fátækustu í okkar samfélagi og þeir snúast hver gegn öðrum, þá hundraðfaldast harmleikur þeirra.
Þetta er dæmisaga sem kallar á breytingar hjartans hjá bæði ríkum og snauðum. Hún dæmir báða hópana og kallar þá til ábyrgðar, vegna þess að báðir hópar eru sekir um öfund og sjálfselsku, sjálfumgleði og hroka. En dæmisagan hefur meira að segja. Hinir fátækustu fátækra ættu að hafa hlotið styrk af frásögninni og hvatningu hennar til að starfa saman, því að þeir vissu að hún kæmi frá syni konunnar, sem lofsöng þann Guð sem hefur „steypt [valdhöfum] af stóli og upp hafið smælingja“; frá manninum, sem hóf þjónustu sína á því að vitna í fyrirheit Jesaja spámanns um gleðilegan boðskap til handa hinum fátæku.
Forréttindamönnum þessara tíma, þeim Gyðingum sem reiddu sig á rómversku innrásarmennina til að vernda misnotkun sína á eigin samlöndum, hlýtur þessi dæmisaga að hafa látið undarlega í eyrum. Ekki var það aðeins vegna gagnrýni hennar á það efnahagskerfi sem múlbatt neðri stéttirnar í fjötra fátæktar til að viðhalda þægindum allra hinna, heldur einnig vegna öfgafullrar kröfu sinnar um að allt sé gjöf frá Guði. Við höfum ekki réttinn til að eiga neitt – hvorki landspildur, peninga né störf – í neinni endanlegri merkingu. Við erum einfaldlega leiguliðar, ráðsmenn gæsku Guðs, og berum ábyrgð hvert gagnvart öðru á velferð hvert annars, og þess er vænst, að við gætum þess, að allir hafi nóg.
Í þá daga var þetta ekki vinsæll boðskapur. Daglaunamennirnir áttu erfitt með að hlýða á hann. Húsbændurnir heyrðu hann og hötuðust við hann. Og hann átti sinn þátt í því, hve skjótt Jesús var krossfestur. En þetta er heldur ekki vinsæll boðskapur nú á dögum, þegar bilið milli eignamannanna og hinna snauðu verður æ breiðara. Best er þó að byrja að ráðast til atlögu við þennan vanda þjóðfélags í sárum og veraldar í ójafnvægi, með því að spyrja sig spurningar Páls: „Hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið?“Aðeins þegar við tökum að sjá veröldina með svo þakklátum augum vogum við okkur að taka alvarlega það, sem þessi orð Jesú gætu merkt: „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
(John Bluck: What About the Workers í „The Giveaway God – Ecumenical Bible Studies on Divine Generosity,“ Risk book series, Útgáfufélag Alkirkjuráðsins, Genf, 2001 (útdrættir). Notað með leyfi. Þýð: Þorgeir Arason)

Fyrir umræður í hópum
Hvernig bregst KFUM og KFUK í þinni heimabyggð við því, að í veröldinni eru nú fleiri og fleiri verkamenn gerðir óþarfir og fjölmargir hafa ekki aðgang að mannsæmandi vinnu?

Bæn
Guð þess réttlætis, sem æðra er okkar skilningi, gef okkur hugrekki og speki til að hafna óréttlátu samfélagskerfi sem meinar fólki að vinna fyrir sér, og hjálpaðu okkur að standa þétt við hlið þeirra, sem lent hafa milli stafs og hurðar í öryggisneti samfélagsins.