Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.“ (Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, 25. gr. 1. mgr.)

3. DAGUR: HIV-VEIRAN, ALNÆMI OG RÉTTURINN TIL MANNSÆMANDI LÍFS

Ritningarlestur: Lúkas 18.1-8.
„Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum“ (Lúk 18.3).

Þeir sem starfa á vettvangi HIV-veirunnar og alnæmis þekkja einum of vel þennan ósanngjarna dóm. Við vinnum saman að því að brjóta niður gríðarlega kraftmikil viðskiptakerfi sem með órétti og ósanngirni svipta fjölda manns með HIV-veiruna voninni um að lifa mannsæmandi lífi. Tölfræðin leiðir í ljós að af þeim 33 milljónum jarðarbúa sem eru með HIV-veiruna, búa um 95 % í hinum svonefndu þróunarríkjum. 9,7 milljónir þeirra þarfnast þegar í stað meðferðar, sem gæti veitt þeim mannsæmandi líf og von um framtíð, en alheimskerfi einkaréttar og viðskiptasamninga kemur í veg fyrir, að þetta sé mögulegt. Hver tala af þessum milljónum er í raun manneskja af holdi og blóði, sem á sér sína drauma og væntingar, og líkt og ekkjan í dæmisögunni, heldur þetta fólk áfram að berjast fyrir réttlætinu.
Lyfjaiðnaðurinn með öllum sínum völdum nýtir sér alþjóðasamninga og -sáttmála sem grundvöll forréttinda sinna og til að tryggja sér hámarksgróða. Valdamestu ríkisstjórnir veraldar eru á þeirra bandi og þrýstingurinn sem þeir beita ekkjur, munaðarleysingja og „útlendinga“ sýnir óréttvísi þeirra. Þeir sem lifa með eða hafa smitast af HIV-veirunni eða alnæmi þekkja þennan valdagíruga dómara einum of vel. En trú okkar gefur okkur þá sannfæringu og fullvissu, að stöðugum og lögmætum kröfum um réttlæti og mannsæmandi líf verði að halda á lofti, og að við megum aldrei gefast upp. Trú okkar á fyrirætlunum Guðs veitir okkur daglega þá vissu, að þrátt fyrir öll okkar mistök muni réttlætið sigra, og að sannleikur og miskunnsemi muni fallast í faðma í þeirri veröld sem við erum að byggja í Guði.
Við viljum ekki fallast á, að verða daglega vitni að óþörfum þjáningum og dauða sem rekja má til skorts á aðgangi að meðferð fyrir hópa og einstaklinga sem efnahagskerfið og skortur á samstöðu og réttlæti hefur svipt mætti. Þess vegna tökum undir með öllum þeim ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum og þeim sem eru á hrakhólum, sem eru smituð af HIV-veirunni og alnæmi en er neitað um lífsnauðsynleg lyf, í hinu eina og stöðuga hrópi þeirra: RÉTTLÆTI! VIÐ VILJUM AÐGANG NÚNA! EFNIÐ LOFORÐIÐ UM AÐ TRYGGJA OKKUR AÐGANG AÐ LÍFSNAUÐSYNLEGUM LYFJUM! Við verðum eitt í Kristi Jesú með öllum þeim einstaklingum og hópum, sem eiga um sárt að binda, og berjumst með þeim fyrir nauðsynlegum grundvallarréttindum þeirra til lífs – já, til mannsæmandi lífs.
Guð talar í þögn þeirra mörgu radda sem megna ekki lengur að hefja upp raust sína til að krefjast réttinda sinna. Guð talar í augum þeirra fjölmörgu sem lifa með HIV-veiruna og líta ásakandi augum á okkur úr sjúkrarúmum sínum, úr vinnunni sem þeir geta ekki lengur haldið áfram að stunda, úr einmanaleika sínum. Guð er ekki þögull. Þvert á móti. Guð hrópar til okkar í gegnum hverja einustu manneskju sem smituð er af HIV-veirunni og hefur ekki aðgang að lífsnauðsynlegum lyfjum til að tryggja sér mannsæmandi líf, eins og fagnaðarerindið lofar okkur öllum. Guð talar einnig til okkar í gegnum þá sem smitaðir eru af HIV-veirunni og hafa aðgang að lyfjum og lifa heilbrigðu og uppbyggilegu lífi, sem fyrirmynd um það sem gæti orðið, og sem tákn um þá von, sem býr í yfirgefnu lífi. Í íhugun og í bæn þurfum við að hlusta, sjá og byrja að vinna út frá þessu þögula hrópi Guðs. Aðeins þeir, sem íhuga í sannleika, geta heyrt þetta hróp og fundið þessa þversagnarkenndu og leyndardómsfullu návist hins réttláta Guðs í ákalli, verkum og væntingum allra þeirra sem meinað er um aðgang að nauðsynlegum lyfjum sem gætu breytt sögu þeirra og lífi.
Frammi fyrir svo umfangsmiklu óréttlæti, sem fram fer í nafni réttar hins valdamikla lyfjaiðnaðar, er Guð opinberaður okkur – ekki aðeins sem Guð réttlætis og jafnræðis, heldur einnig sem dómarinn sem tekur sér stöðu við hlið hinna veiku, særðu og útskúfuðu. Við vitum og játum að Guð er með þeim, sem eru fastir í veikleika kerfisins og samfélagslegu óréttlæti. Réttlæti Guðs tekur sér stöðu við hlið, og tekur undir hróp, þess lýðs Guðs sem lifir með HIV-veiruna, um rétt þeirra til reisnar og framtíðar.
(Lisandro Orlov: Meditación sobre el Evangelio del Domingo 21 de Octubre de 2007, Pastoral Ecuménica VIH-SIDA, Buenos Aires, Argentínu, október 2007. Notað með leyfi. Þýð: Þorgeir Arason)

Fyrir umræður í hópum
Ekkjan stendur fyrir alla þá, sem eiga um sárt að binda, en finna, þvert á smæð sína og varnarleysi, styrk í trú sinni til að verja réttindi sín: réttindi þeirra, sem særðir lifa með HIV-veirunni, og allra hinna snauðu, sem bíða réttlætis og þess að sá réttur, sem Guð hefur gefið þeim, verði virtur. Hvernig gæti dæmisagan um ekkjuna verið lesin í þessum skilningi nú á tímum HIV-veirunnar og alnæmis og ákallsins um aðgang allra að lífsnauðsynlegum lyfjum?

Bæn
Mál er, Drottinn, að hinir sjúku fái þau lyf sem þeir þarfnast, svo að þeir deyi ekki að óþörfu. Mál er, Drottinn, að kirkjurnar opni öllum dyr sínar. Mál er, Drottinn, að byrðum hleypidóma, sjálfsréttlætingar og hroka sé aflétt. Mál er, Drottinn, að hlýða á hróp barnanna, sem hvorki eiga móður né föður. Mál er, Drottinn.

Fædd frjáls, fædd jöfn: Saga Kousalyu Periasamy frá Indlandi
Þegar Kousalya var 21 árs gömul var hún neydd til að giftast frænda sínum. Innan við ári eftir brúðkaupið dó maðurinn hennar og hún uppgötvaði að hún var jákvæð af HIV-veirunni. Þetta var árið 1995 og lítill skilningur en mikill ótti ríkti í garð HIV-veirunnar og alnæmis á Indlandi á þessum tíma. Þessi unga ekkja var nú útskúfuð af nokkrum ættingja sinna. En Kousalya ákvað að láta hvorki ungan aldur sinn né þjóðfélagsstöðu ráða örlögum sínum. Þegar ættingjar hennar hótuðu að gera eigur hennar upptækar barðist hún gegn því fyrir rétti. Þegar málið fékk sína framgöngu í dómskerfinu varð ljóst, að hún yrði að gera það opinbert að hún væri með HIV-veiruna, og ákveðin í að fá réttlætinu framgengt talaði hún af hugdirfsku um sýkingu sína og varð ein fyrsta konan á Indlandi til að tala opinberlega um líf sitt með HIV-veiruna. Af miklu hugrekki og ákveðni vann Kousalya að því að gera konur með HIV-veiruna sýnilegri á Indlandi og að lokum um heim allan. Hún stofnaði fyrsta tengslanet HIV-sýktra kvenna á Indlandi, en nú taka yfir 5.000 konur þátt í því. Tengslanetið talar máli áætlana og þjónustu yfirvalda til að jafna stöðu kynjanna og starfar að því að binda enda á mismunun og vanvirðu gegn konum með HIV-veiruna.
Kousalya fékk verðlaunin „Konur sem leiða breytingar“ á vegum Heimssambands KFUK árið 2007, fyrir starf sitt gegn kúgun og misrétti. Konur sem eru með HIV-veiruna taka nú mikilvægan þátt í viðbrögðum við HIV-veirunni og alnæmi. Samstarf kvenna í samfélaginu við yfirvöld, lyfjaframleiðendur, sveitarfélög, milliríkjastofnanir og forsvarsmenn iðnaðar er nauðsynlegt ef við ætlum að tryggja öllum aðgang að meðferð við HIV-veirunni, umönnun og forvarnir.