Allir menn skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án manngreinarálits. Ber öllum mönnum réttur til verndar gegn hvers konar misrétti, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa,
svo og gagnvart hvers konar áróðri til þess að skapa slíkt misrétti.“ (Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, 7. gr.)
2. DAGUR: KVENRÉTTINDI ERU MANNRÉTTINDI
Ritningarlestur: Lúkas 24.1-12.
„Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu“ (Lúk 24.10).
Hvað vitum við um konurnar sem voru við krossinn og urðu svo upprisuvottar Jesú?
Aðeins Lúkas talar um fjölda kvenna við páskaatburðina. Konurnar úr hópi lærisveinanna fylgdu Jesú frá Galíleu og í lokaferð hans til páskahátíðarinnar í Jerúsalem. Við krossinn stóðu konurnar „álengdar“ (Lúk 23.49) þar sem vopnum búnir hermenn Rómverja komu í veg fyrir að þær kæmust nær Jesú. Pétur fylgdi Jesú úr fjarlægð, svo að ekki kæmist upp um að þeir þekktust. Konurnar voru á hinn bóginn nærri frá upphafi til enda. Þar með sýndu þær að þær báru þá ást til Jesú, sem gerði þær trúfastar og hugdjarfar þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Konurnar við krossinn höfðu hlotið endurreisn við fætur Jesú. Hann hafði fært þeim aftur líf sitt (dóttir Jaírusar) og reisn (konan með blóðflæðið og kreppta konan). Nú voru þær hvorki líflausar, óhreinar né krepptar – þær stóðu uppréttar.
Í þjáningum sínum var Jesú hughreysting af félagsskap kvennanna.
Það er athyglisvert að taka eftir því, að í guðspjöllunum er frá því sagt, að konurnar hafi engu til sparað þegar þær voru að smyrja Jesú. Þær voru ætíð örlátar og helltu hiklaust á hann dýrustu ilmsmyrslum (Jóh 12.3, Lúk 7.38, Jóh 11.2). Það er sömuleiðis athyglisvert að taka eftir því, að það voru karlmenn sem gagnrýndu framferði þeirra (Símon farísei, Júdas Ískaríot). Í báðum tilfellum ávítaði Jesús karlmennina og samþykkti af öllu hjarta ástrík verk kvennanna.
Þær smurðu hann meðan hann var á lífi og þær vildu einnig smyrja hann eftir að hann var dáinn.
Konur geta upplifað páska á annan hátt en karlmenn; konur upplifa páska í hverjum mánuði í líkama sínum. Þegar konurnar frá Galíleu fundu gröf Jesú tóma, þá trúðu þær því, að Guð hefði reist son sinn upp frá dauðum. Og hvers vegna hefðu þær heldur ekki átt að trúa því, úr því að þær höfðu séð Jesú reisa upp frá dauðum litla stúlku (Lúk 8.51-56), ungan mann (Lúk 7.11-17) og Lasarus, vin sinn (Jóh 11.43)?
Þegar í stað fóru þær til að segja lærisveinunum 11 og hinum öllum frá upprisu Krists. Lúkas minnist á, að í hópnum hafi verið þær María Magdalena, Jóhanna og María, móðir Jakobs. En hve dapurlega fór þetta! Öll orð þeirra virtust „markleysa ein“ í eyrum karlmannanna og þeir trúðu þeim alls ekki (Lúk 24.9-11).
Ef til vill höfðu lærisveinarnir tólf aldrei skilið til fulls að Jesú var alvara þegar hann talaði um, að í sínu ríki yrðu allir jafnir. Kannski héldu þeir, að það væri hending ein, að Jesús hefði rætt við samversku konuna við brunninn (Jóh 4), að hann hefði í miskunn sinni læknað konur (Lúk 8.46-56), og að hann hefði hafnað því, að örlög kvenna ákvörðuðust af líkama þeirra (Lúk 11.27-28).
Fortjald musterisins rifnaði í tvennt þegar Jesús gaf upp öndina (Lúk 23.45). Það er ekkert lengur til, sem veitir einum forréttindi fram yfir annan. Konurnar gengu inn í Nýja sáttmálann, inn í loftsalinn þar sem postularnir búa, og biðja með þeim í einum anda. Heilögum anda er úthellt yfir alla menn – konur og karla. Þessu er gjörólíkt farið á við Gamla sáttmálann. Mismunun kvenna í samkunduhúsinu og musterinu er hafnað. Í kirkju Krists er enga aðgreiningu lengur að finna.
Við getum ekki neitað því, að Jesús kaus sér konur sem votta upprisu sinnar. Í Matteusarguðspjalli (28.9-10) og Jóhannesarguðspjalli (20.1-18) er að finna síðustu orð Jesú til kvennanna. Þetta er eins konar „erfðaskrá“ Jesú og kveðja hans:
„Kona, hví grætur þú…?“
„Heilar þið!“
„Óttist ekki…“
„Farðu til bræðra minna… Farið og segið bræðrum mínum og systrum…“
Hve undursamlegur er Jesú í garð kvenna! Hann þekkir þær af innsta ástar grunni. Annars vegar leitar hann þeirra, hvetur þær áfram, elskar þær, leyfir þeim að faðma sig og kyssa, og hins vegar sendir hann þær út til að vera boðberar og vottar upprisu sinnar.
Í hvert skipti sem við vitnum um umbreytandi kraft upprisunnar í lífi okkar, fylgjum við í fótspor mæðra okkar í trúnni – Maríu Magdalenu og hinna. Þær sem hafa mætt Drottni lífsins í endurlausn líkama sinna og anda kunna að hafa boðað fagnaðarerindið af þvílíkum krafti. Rétt eins og á tímum Maríu Magdalenu þarfnast veröldin nú slíks persónulegs vitnisburðar. Jesús staðfesti getu og rétt kvenna til að vitna og predika. Kall þeirra til þessara verka kemur einnig frá honum.
(Adriana Méndez Peñate: „La Buena Noticia desde la Mujer – Reflexiones Sobre la Mujer en el Evangelio de Lucas,“ Serie Pastoral 9, Centro de Reflexión Teológica, Mexíkó, 1989, bls. 113-118 (útdrættir). Notað með leyfi. Þýð: Þorgeir Arason)
Fyrir umræður í hópum
María Magdalena hvorki afneitaði né yfirgaf Jesú. Í raun réttri má segja, að hún hafi verið fyrsta manneskjan til að boða upprisu Krists. Hvers vegna haldið þið að hennar sé einkum minnst sem iðrandi syndara, en Péturs, sem bölvaði og afneitaði Jesú, sé minnst sem mikils predikara (Markús 14.66-72, Jóh 21.15-19)?
Hvert er sjónarmið KFUM og KFUK í þinni heimabyggð hvað snertir þætti í menningunni sem hvetja til ójanfræðis kynjanna? Hvernig getum við hvatt ungt fólk til að nálgast hlutverk kynjanna frá sjónarhóli Krists?
Bæn
Guð, miskunn þín er takmarkalaus og móðurlíf þitt er nógu stórt til að fæða af þér allt líf, næra sérhvern möguleika, vernda sérhverja von og fyrirgefa sérhverja misgjörð. Safna þú okkur saman í móðurlífi þínu svo að við endurfæðumst í þinni mynd, og konur um heim allan umbreytist af ást þinni fyrir Jesú Krist, bróður okkar.