Bænavika – dagur 1: Hvers vegna ættum við að taka þátt í mannréttindastarfi?
„Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“ (Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, 2. gr. 1. mgr.)

1. DAGUR: HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ TAKA ÞÁTT Í MANNRÉTTINDASTARFI?

Ritningarlestur: 1. Mósebók, 1. kafli.
„Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu“ (1 Mós 1.27).

Margvísleg framþróun, sem átti sér stað á sviði mannréttinda á 20. öld, varð fyrir miklum áhrifum og jafnvel innblástri frá kristnum mönnum. Við verðum þó að gæta okkar á því, að telja ekki óbrotið samasemmerki vera á milli sjónarmiða Biblíunnar og frumkristninnar annars vegar og nútímalegs skilnings á mannréttindum hins vegar, sér í lagi nú í samfélagi fjölmenningar og afhelgunar. Þróun mannréttinda hefur verið margslungin, og þar hafa margs konar sögulegir viðburðir átt hlut að máli, ekki síst reynsla kúgunar og alræðis, óréttlætis og mannréttindabrota. Engu að síður má líta svo á, að mannréttindi eigi rætur sínar að rekja til fornra trúarviðhorfa og trúariðkunar, og séu ávextir þeirra í stjórnmálum nútímans.
Þó að mannréttindi séu almennt í samhljómi við sjónarmið Biblíunnar, eru þau engin séreign kristinna manna. Hvað snertir framgöngu kirkjunnar má að sönnu segja, að margt í sögunni orki þar tvímælis. Og stundum hafa kirkjur jafnvel fremur unnið gegn mannréttindum en að framgangi þeirra. Auðmýkt og stöðug sjálfsgagnrýni er því nauðsynleg kristnum mönnum. Trúarhefðir kunna að þurfa á gagnrýni að halda frá sjónarhóli mannréttindanna, og viðhorf eða gjörðir á sviði mannréttinda kunna að þurfa á gagnrýni trúarbragðanna að halda, t.d. vegna hugsanlegrar áherslu sinnar á einstaklingshyggju.
Í sköpuninni gefur Guð öllum mönnum reisn, samanber orð 1. Mósebókar: „Hann skapaði [manninn] eftir sinni mynd.“ Þetta er í innsta kjarna þess, sem býr að baki mannréttindastarfi. Mannleg reisn er fyrst og fremst í tengslum við Guð. Þessa grundvallarreisn verður að vernda með ráðum og dáð og halda á lofti andspænis öllum þeim öflum, sem reyna að draga úr, níðast á eða afneita gildi manneskjunnar. Þessi reisn er margs konar: Hún snertir líkamlegar og félagslegar þarfir okkar, en ekki síður þá grundvallarþörf okkar, sem er andleg. Hún felur í sér „brauðið,“ sem þarf til að viðhalda lífi á jörðinni, „brauðið,“ sem eru réttindi allra í samfélagi við aðra, og „brauð“ himins. Merking þess að vera mannlegur er einfaldlega miklu dýpri en svo, að hún verði takmörkuð af þröngu, lagalegu viðhorfi til manneskjunnar og réttinda hennar. Viðhorf ólíkra trúarhefða geta auðgað þá merkingu. Þess vegna þarf að halda á lofti margvíslegum réttindum, pólitískum, borgaralegum, efnahagslegum, félagslegum, menningarlegum og trúarlegum.
Réttlæti og samhygð eru grundvallarþættir í verund Guðs, og í því starfi Hans, sem við erum kölluð til að vinna að. Réttlæti manna á meðal byggist á réttlæti Guðs, sem frelsar hina kúguðu úr ánauð (2 Mós. 20.2). Það að leita réttlætis felur í sér að vera vakandi fyrir réttindum allra manna, og samhygð felur í sér að vernda og bera umhyggju fyrir þeim, sem ekki búa við full mannréttindi. Þessar tvær víddir fara saman. Hið síendurtekna ákall Ritningarinnar um að leita réttar „útlendingsins, ekkjunnar og munaðarleysingjans“ – að rétta út hönd samhygðar, sem endurspeglar kærleika Guðs – það felur ávallt í sér lög, sem leitast við að tryggja að þessir einstaklingar fái réttláta úrlausn mála sinna. Í Gamla testamentinu byggjast þessi lög ekki á „réttindum“ einstaklinganna, heldur á skyldum samfélagsins. Lög, sem eiga að koma á reglu í samfélaginu, geta þó einnig í sjálfum sér orðið kúgandi, og því verður réttlætið stöðugt að byggjast á hjarta samhygðarinnar (sjá Jesaja 10.1-2).
Búi menn við fátækt eða skort á grundvallarréttindum, er það árás á þá réttlátu samfélagsskipan, sem Guð ætlar okkur. Guð er réttlátur og manneskjurnar eiga að vera hendur hans og fætur við að koma á réttlæti í heiminum. Samfélag, sem byggt er á reglu réttlætis og samhygðar og þar sem manneskjurnar geta blómstrað, er byggt upp neðan frá, líkt og Hanna lýsti í lofsöng sínum: „[Guð] lyftir hinum auma úr duftinu og hefur hinn snauða úr skarninu, leiðir hann til sætis hjá höfðingjum og skipar honum í öndvegi“ (1 Sam 2.8a). Virðing, jafnræði og þátttaka eru lykilatriði mannréttinda. Sérstakan gaum verður að gefa þeim, sem þyngst eru kúguð, mest eru útilokuð, þeim mismunað eða þau svipt tækifærum. Lögð var áhersla á þetta í því, hvernig Jesús boðaði og holdgerði hið nýja ríki Guðs (sjá Lúkas 4.18-19).
Að lokum er því það, sem kristin trú hefur fram að færa í þróunarstarfi, byggðu á mannréttindum, krafturinn til að geta ímyndað sér og lifað í voninni um þann heim, sem er ólíkur núverandi veruleika þjáningar, kúgunar og ofbeldis – það er að trúa því, að annar heimur sé mögulegur! – og það, að vera óþreytandi við að starfa með öðrum, við að ná því marki.
(Karen L. Bloomquist: „Thinking it over…“, 16. tbl., júní 2007, Lútherska heimssambandið , Genf, Sviss (útdráttur). Notað með leyfi. Þýð: Þorgeir Arason)

Fyrir umræður í hópum
Hvernig er menningin notuð til að koma í veg fyrir, að mannréttindi séu virt til fulls í ykkar samfélagi?
Hver eru viðbrögð KFUM og KFUK í þinni heimabyggð við þessum veruleika, eða hvaða áætlun mætti vinna til að sporna við honum?

Bæn
Guð lífsins, miskunnarinnar og réttlætisins. Hjálpa þú okkur að muna, að friður og réttlæti verða ávallt að fara saman; annað þrífst ekki án hins. Amen.