„Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.“ 2.Kor 8:2

Fyrir nokkru hringdi faðir Evheniy, tengiliður okkar í Úkraínu, í okkur og spurði hvort það yrðu nokkuð „Jól í skókassa” í ár. Hann sagði að það væri allt fullt af fréttum í Úkraínu um að Ísland væri einfaldlega farið á hausinn og því hélt Evheniy, skiljanlega kannski, að það yrðu engin „Jól í skókassa”. Við sögðum honum hins vegar að söfnunin væri ennþá á dagskrá og gátum staðfest að úkraínsk börn myndu fá skókassa frá Íslandi um jólin, líkt og undanfarin ár. Við gætum þó ekki lofað að það kæmu jafn margir kassar sökum efnahagsástandsins. Ástandið á Íslandi er vissulega slæmt þessa dagana og eflaust margir sem ekki hafa getað gert skókassa af þeim sökum.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að allt útlit er fyrir að það hafi safnast jafn margir skókassar í ár og á síðasta ári, eða um 5.000.

Reyndar er nákvæm tala eins og stendur 4.721 kassi en reynsla okkar frá fyrri árum segir okkur að það eigi eftir að berast fleiri kassar á morgun og á mánudaginn. Við gerum þess vegna fastlega ráð fyrir að endanlega tala skókassa verði mjög nálægt 5.000.

Raunin virðist vera sú að þegar harðnar í ári fer fólk oft að huga meira að því sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Það hugar meira að andlegum verðmætum í stað veraldlegra og verður betur meðvitað um þá sem hafa það ekki jafn gott og það sjálft.

Við munum að sjálfsögðu birta endanlega tölu skókassa þegar hún liggur fyrir, á mánudagskvöld, en gámurinn heldur síðan af stað í langt ferðalag til Úkraínu á þriðjudagsmorgun.

Okkur langar að lokum að þakka öllum sem tóku þátt í verkefninu kærlega fyrir. Vegna örlætis ykkar munu um 5.000 úkraínsk börn gleðjast ólýsanlega mikið um jólin.