Gámur með 4.925 skókössum var sendur áleiðis til Úkraínu um miðjan nóvember. Samkvæmt upplýsingum flutningafélagsins verður hann þar í landi upp úr miðjum desember.
Þar sem KFUM er ekki skráð sem líknarfélag í Úkraínu hefur félagið fengið til liðs við sig samtök sem heita ADRA sem eru hjálparsamtök aðventista þar í landi. Það félag er skráð líknarfélag og getur því sótt um innflutning svona vöru eins og við erum að senda án aðflutningsgjalda.
Ferillinn er nokkuð flókinn og mikið skrifræði. Því þurfa allir pappírar og allt innihald gámsins að vera í góðu lagi svo ekki komi til vandræða.
Við höfum þær fréttir frá Úkraínu að þar bíði fólk spennt og tilbúið til að dreifa kössunum í réttar hendur. Búið er að útvega geymsluhúsnæði þar sem tekið verður á móti pökkunum og þaðan verður þeim dreift. Ekki bara til þurfandi í Kirovograd eins og áður heldur getum við nú stækkað svæðið vegna þess hve margir tóku þátt hér heima og færðu gjöf í skókassa.
Héðan fara meðlimir úr biblíuleshópnum Bleikjunni og aðstoða við dreifingu gjafanna og til að safna upplýsingum og myndefni sem þið fáið að njóta seinna. Þau fara 29. desember og koma til baka þann 7. janúar á nýju ári.