Útdráttur úr grein í Bjarma í des. 1992
Anna Jóhanna Hilmarsdóttir, BA í guðfræði

Upphafið
KFUK í Reykjavík rekur upphaf sitt til þess er Friðrik Friðriksson stofnaði Kristilegt stúlknafélag 29. apríl 1899. Kristilegt stúlknafélag starfaði að mestu undir verndarvæng Friðriks fyrstu árin með hjálp nokkurra eldri kvenna, en stofnendur félagsins voru stúlkur á fermingaraldri. Eftir aldamótin var farið að nefna félagið KFUK (Kristilegt félag ungra kvenna), en starfið gekk misvel og lá stundum niðri í langan tíma vegna húsnæðisskorts. Hægt og rólega óx þessu starfi þó svo fiskur um hrygg að snemma árs 1909 voru kosnar 7 stúlkur úr hópi félagssystra í stjórn og hefur félagið starfað óslitið síðan. KFUK hafði ekki mikil umsvif í peningamálum fyrstu árin. Félagsgjald var fyrst tekið upp 1902 og var þá tvær krónur á ári. Ástæðan fyrir því var sú, að eftir 1901 fékk félagið aðstöðu fyrir fundi sína í Melsteðshúsi, sem var í eigu KFUM og þurfti KFUK að greiða húsaleigu. Um aðra fjáröflun var ekki að ræða enda fjárþörf ekki mikil þar sem allt starf var unnið í sjálfboðavinnu og starfið ekki stórt í sniðum.

Þegar félagið hafði fengið eigin stjórn jókst áhuginn og meiri umsvif urðu í félagsstarfinu. Þörf á auknu fjármagni kom fljótt í ljós og var þá farið að huga að aukinni fjáröflun. Þann 11. desember 1909 var svo haldinn fyrsti basar félagsins. Seld var handavinna, sem unnin hafði verið á saumafundum félagsins, en auk sölunnar var haldin „skemmtun“ og aðgangur seldur. Á dagskrá skemmtunarinnar var hljóðfæraleikur, söngur og upplestur. Basarinn gekk mjög vel og var ákveðið að halda þessu áfram veturinn eftir. Hefur basarinn síðan verið haldinn í byrjun desember á hverju ári, að einu undanskildu (1947), allt fram á þennan dag.

Saumafundir
Undirbúningur basarsins fór að miklu leyti fram á saumafundum fyrstu áratugina. Saumafundir rekja upphaf sitt til þess að árið 1906 byrjuðu KFUK stúlkur sem þá hittust á fundum í Melsteðshúsi að hafa sérstaka handavinnufundi þar sem þær unnu einhverja handavinnu á meðan á fundi stóð. Þegar starf félagsins hófst fyrir alvöru í hinu nýja félagshúsi KFUM við Amtmannsstíg árið 1909, var ákveðið að hafa sérstaka saumafundi í aðaldeildinni á þriðjudagskvöldum en almenna félagsfundi á föstudagskvöldum. Saumafundirnir voru aðallega vinnufundir fyrir basarinn. Á árunum 1910 – 1920 var mikill áhugi á þessum saumafundum og var þá stundum saumað meira en fyrir basarinn. Á stríðsárunum 1914 – 1918 saumuðu konurnar rúmfatnað og föt á börn og sendu til Austurríkis. Seinna var einnig saumað handa fátækum fjölskyldum í Reykjavík. Þessir þriðjudagssaumafundir héldust fram yfir 1930, en þá voru þeir sameinaðir almennum félagsfundum. Föstudagsfundirnir voru fluttir á þriðjudagskvöldin og voru saumafundir einu sinni til tvisvar í mánuði. Saumafundum fækkaði svo smám saman og voru að lokum aðeins haldnir einu sinni til tvisvar á vetri þar til þeir lögðust af eftir 1978.

Lengi framan af voru saumafundir notaðir til að vinna handavinnu á basarinn, en eftir 1930 breyttist þetta og konurnar unnu aðallega sína eigin handavinnu á þessum fundum. Árið 1947 var mikil umræða um basarinn og þá komst ein stjórnarkona svo að orði, að: „saumfundirnir væru nú sýningar og skemmtifundir þar sem hver saumaði fyrir sig.“ Afleiðingin af þessari umræðu varð sú, að haustið 1948 var aftur farið að nota saumafundina til að vinna fyrir basarinn og hélst það að mestu leyti á meðan sérstakir saumafundir voru á dagskrá aðaldeildarinnar. Þegar saumafundum fækkaði, byrjaði hópur kvenna að hittast reglulega í heimahúsum og vinna fyrir basarinn. Hefur það haldist fram á þennan dag.

Basarnefnd
Fyrstu áratugina sá stjórnin um basarvinnuna og fékk með sér konur í undirbúnings og afgreiðslustörf. Eftir 1930 var undirbúningur mjög lítill. Félagskonur gáfu handavinnu eftir vilja og getu en yfirleitt var basarinn ekki á dagskrá stjórnarfunda fyrr en í byrjun nóvember. Á aðalfundi félagsins árið 1947 kom fram mikil óánægja með það hve lítið væri lagt upp úr basarnum, hann væri of lítið og of seint undirbúinn og gæfi því ekki þær tekjur sem hann gæti. Ákveðið var á þessum aðalfundi að fella basarinn niður það ár og reyna aðra leið. Stjórnin ákvað að halda fjáröflunarsamkomu í stað basars og var hún haldin í byrjun desember 1947. Á samkomunni var söngur og hljóðfæraleikur, happdrætti og hugleiðing.

KFUK konur voru flestar ósáttar við það að fella basarinn niður og í apríl 1948 ákvað stjórn félagsins að stefna að því að hafa hefðbundinn basar í desember en hefja undirbúning fyrr en áður. Skipaði hún þá hina fyrstu basarnefnd. Basarnefndin hóf strax undirbúning sem fólst m.a. í því að gera saumafundina að vinnufundum fyrir basarinn og skipuleggja þá vinnu sem þar var unnin. Einnig ákvað basarnefndin að hafa kaffisölu í tengslum við basarinn og almenna samkomu um kvöldið. Þessi basar tókst mjög vel og var ágóðinn um fjórum sinnum meiri en árið 1946.

Á aðalfundi 1949 var skipuð ný basarnefnd fyrir næsta basar og hélst sú hefð lengi að konur voru tilnefndar í basarnefnd á aðalfundi. Fyrsti formaður basarnefndar var Helga Jónsdóttir og var hún formaður til 1965. Eftir það hafa nokkrar konur stjórnað basarnefnd en það hefur lengi einkennt nefndina að flestar konur sitja þar í nokkur ár og hefur það stuðlað að stöðugleika sem skilar sér í góðum basar á hverju ári.

Basarsamkoma
Fyrstu árin sem basarinn var haldinn var hluti hans skemmtidagskrá eins og áður hefur komið fram og var aðgangseyrir innheimtur við dyr. Ekki er ljóst hversu lengi sú hefð hélst. Árið 1948, þegar fyrsta basarnefndin sá um basarinn, ákvað hún að hafa samkomu að kvöldi basardagsins og hafa þar fjáröflun auk annarra dagskráratriða. Var slík basarsamkoma haldin á hverju ári eftir það. Dagskrá hefur einkennst af söng, upplestri og hljóðfæraleik auk fjáröflunar sem oftast hefur verið í formi happdrættis. Samkoman var yfirleitt í umsjá stjórnar KFUK, en önnur undirbúningsvinna fyrir basarinn var að mestu í höndum basarnefndar.

Árið 1986 var ákveðið að hætta að hafa basarsamkomu á laugardagskvöldi vegna þess að aðsókn var orðin mjög lítil. Var hin hefðbundna basarsamkoma þá flutt yfir á sunnudagskvöld og hélst sú hefð í mörg ár að fyrsta sunnudagssamkoma KFUM og KFUK í desember var í umsjá KFUK og fór þar fram fjáröflun fyrir KFUK með happdrætti.

Stuðningur við starfið
Basar KFUK hefur verið helsta fjáröflun félagsins og mestu leyti sú eina fyrir utan félagsgjöld. Ágóðinn hefur yfirleitt verið góður og gert það að verkum, að félagið hefur getað haldið uppi sífellt vaxandi starfi, einkum meðal barna og unglinga. Á árunum 1949 til 1982 voru stofnaðar 12 starfsstöðvar í úthverfum Reykjavíkur og í nágrannabæjunum og voru lengi a.m.k. tvær deildir á flestum þeirra. Deildirnar fengu árlega styrk úr félagssjóði til að standa undir kostnaði við starfið. Á síðustu árum hafa hins vegar orðið þær breytingar, að kostnaður æskulýðsstarfsins hefur verið greiddur úr sameiginlegum sjóði KFUM og KFUK. Basartekjurnar hafa einnig stuðlað að því að KFUK hefur haft fjármagn til að styrkja aðra þætti í starfi félagsins. Frá árinu 1948 hafa 10% af tekjum basarsins runnið í Sjúkrasjóð KFUK sem hefur það hlutverk að gleðja sjúkar félagssystur. Sjóðurinn var stofnaður á saumafundi árið 1912 og hafði tekjur af samskotum á saumafundum fram til ársins 1948. Árið 1976 ákvað stjórn félagsins að basartekjur það ár skyldu renna til endurbóta á húsnæði félaganna við Amtmannstíg og árið 1978 var ákveðið að láta hluta af basartekjum renna til byggingar leikskála í sumarbúðum KFUK í Vindáshlíð. Þegar bygging aðalstöðvanna við Holtaveg hófst, átti KFUK nokkuð fjármagn í félagssjóði, sem lagt var í bygginguna og var það að mestu afgangur af basartekjum síðustu ára.

Heimildir: Fundargerðir stjórna KFUM og KFUK, Mánaðarblað KFUM, Bjarmi, dagskrár og fundarboð í safni sr. Friðriks og úr fórum Bjarna Eyjólfssonar.