Úr sjálfsævisögu hans, Undirbúningsárin

Séra Friðrik FriðrikssonSvo fór að líða á nóvembermánuð og þá fór mér að verða dálítið órótt út af árekstrinum milli þessa kristilega sjálfboðaliðastarfs og skyldunámsins.  Og ég fann æ betur og betur, að ég var ekki maður til að hafa hvort tveggja saman; sumir gátu skipt sér þannig á milli, að þeir gátu unnið gott verk í félaginu og stundað nám sitt, en ég fann, að ég mundi þurfa að beita við mig mjög hörðu, ef ég ætti að hætta við félagið.  Mér fannst ég bregðast ýmsum af hinum ungu, sem ég fann, að ég var til hjálpar.  Þetta varð því í huga mínum að skyldubága, en í raun og veru var það þannig, að skyldan stóð á móti tilhneigingunni.  Og tilheigingin hafði sterkari taugar.  En baráttan varð alltaf þyngri og þyngri.  Svo kom spursmálið: En ef Guð er nú að leiða þig að ákveðnu verki og ætlar þér þetta fyrir ævistarf?  Ég varð órólegri og órólegri; hvar sem ég stóð og var, kom þessi óróleiki yfir mig.  Stundum varð hann nær því óþolandi.  Ég hafði samt ekki orð á þessu við neinn, því þótt ég ætti marga vini, þá var ég ekki viss um, að neinn mundi fyllilega skilja mig og þar að auki vildi ég ekki skerða gleði annarra með sorgum mínum.

Svo leið fram til 30. nóvember.  Þá náði þetta sálarástand hámarki sínu.  Það kvöld lokaði ég mig inni og bað og ákallaði Guð “úr djúpinu”, og bað hann um upplýsingu yfir veg þann, er hann vildi, að ég skyldi ganga.  Ég opnaði alla mína sál fyrir honum, og bað svo um, að hans vilji mætti verða, hvort sem hann félli saman við minn vilja eða ekki; bað hann um að gefa mér eitthvert teikn eða upplýsingu um sinn vilja, sem væri svo ljós, að það væri ómögulegt fyrir mig að villast; ég tiltók ekkert um teiknið, því það áleit ég ekki sæma, heldur hitt, að það kæmi alveg ótvírætt, hvort hann vildi að ég skyldi helga mig algjerlega málefni hinna ungu eða rífa mig lausan frá því og taka aftur með fullum krafti á náminu.  Ég held ég hafi þannig talað við Guð í heila tvo tíma frá kl. hér um bil 9 til kl. 11.  Þá steig allt í einu friður yfir sál mína og ég fékk innri sannfæringu um, að bæn mín væri heyrð og að ég fengi svar, en hvernig eða hvenær, það var ég ekki einu sinni forvitinn um að vita.  Ég var alveg orðinn rólegur og ásetti mér að bíða Drottins tíma, og lagði allt í hans hönd.

Svo fór ég upp til Har. Níelssonar.  Það var afmælisdagur hans.  Ég talaði ekkert um þetta, sem lá mér á hjarta, og svo ákváðum við að vera saman til altaris næsta dag, því að það var sunnudagur, og ég vildi staðfesta loforð mitt um hlýðni við altarisborðið.  Svo næsta dag vorum við til altaris í Trínitatiskirkjunni og friður og fullvissa fyllti sál mína með öruggri vissu um nærveru Guðs og handleiðslu hans.  Meðan ég lá á hnjánum við gráturnar hafði ég mjög ákveðna tilfinningu um að hin gegnumstungna hönd frelsara míns hvíldi yfir höfði mínu.  Það var mjög sælurík stund.  Svo beið ég rólegur dag frá degi.  Ég var svo handviss um að teiknið kæmi, að ég hafði engar áhyggjur.  Ég starfaði meira en áður og gekk líka í tíma á háskólanum.  Hið eina sem ég sló slöku við var Skotfélagið.  Ég skildist við það um þessar mundir.
Svo liðu dagarnir fram að 12. desember.  Ég lá um morguninn snemma í rúmi mínu og mig dreymdi.  Mig dreymdi að ég stæði einhvers staðar, ég vissi ekki hvar, og fram hjá mér gekk röð af drengjum, sem ég hafði þekkt og kennt, þegar ég var í fjórða bekk.  Þar sá ég Júlíus Árnason, Sigvalda Stefánsson (Kaldalóns), Pétur Egilsson og þá alla.  Sigurður Loftur, uppáhaldið mitt sérstaklega frá þeim tíma var þar og leit til mín og sagði: “Það er grein í Helgakveri, sem ég skil ekki.” “Ég skal útskýra hana fyrir þér,” sagði ég; svo gekk hann líka áfram.  Guðbjartur, ég man ekki hvers son, sagði: “Það er langt síðan þú komst heim til okkar mömmu!” “Ég kem nú bráðum,” sagði ég; svo vaknaði ég og draumurinn var svo lifandi fyrir mér.  Ég lygndi aftur augunum og naut draumsins.  Ég sá þá fyrir mér þessa drengi eins og þeir voru þá, eins klædda og þá og eins litla.  Ég hafði um mörg ár ekkert munað eftir þeim fyrir öllu hinu nýja, og mér datt í hug: Nú eru þeir á U-D aldri, og ég hugsa aðeins um danska drengi.  Ég gæti nú skrifað þeim bréf og þannig orðið þeim að liði í andlegum efnum.
Svo var barið að dyrum og inn kom pósturinn og lagði tvö bréf á borðið.  Ég tók annað og las það, það var frá mömmu.  Ég þekkti ekki höndina á hinu.  En utan á var skrifað: Hr. cand. phil. – ég varð hálfgramur og fannst eins og væri það móðgun.  Stud. mag var þó hið rétta og cand. phil. notað mest um þá, sem hættir voru öllu námi. –  Ég var að hugsa um að opna það ekki.  Þá var aftur komið inn.  Það var Har. Þórarinsson.  Nú bjuggum við ekki saman.  Ég var fluttur á þriðja gang nr. 12 og hafði herbergi einn, fremra herbergi en innra herbergið hafði fyrst danskur stúdent og seinna Sigurður Magnússon frá Laufási.  Haraldur vildi fá fréttir, en ég hafði engar.  Hann vildi að ég opnaði bréfið, en ég sagði nei, og stakk því niður í borðskúffuna hjá rúmi mínu.
Svo fór Haraldur hálfgramur.  En er hann var farinn, tók ég bréfið og fór að skoða það, og svo fór að ég opnaði það.  Það var frá Þórhalli lector Bjarnarsyni.  Ég fór að lesa.  Það var um það, að hann hefði heyrt, að ég starfaði mikið í hinu kristilega félagi ungra manna og væri eini Íslendingurinn, sem þekkti félagið af reynslunni.  Hann hefði og heyrt, að nám mitt væri að fara út um þúfur af þessum ástæðum.  Hann spurði, hvort ég vildi nú ekki koma heim og vinna að stofnun slíks félags heima og stæðu íslenzkir drengir mér nær en danskir.  Gæti ég unnið fyrir mér með kennslu og ef ég vildi gengið á prestaskólann, til þess að hafa það fyrir bakhjarl o.s.frv. – Þegar ég hafði lauslega rennt augunum yfir bréfið, reis ég upp og henti því út í horn og sagði: “Það skal þó aldrei verða,” en samt komst ég í mikla geðshræringu.  Ég fór að klæða mig.  Er ég var hálfklæddur og ætlaði að fara að þvo mér, kom allt í einu hræðileg hugsun að mér: “En ef þetta er nú teiknið og þetta væri Guðs vilji!” “Nei, það gat ekki verið og má ekki vera,” sagði ég við sjálfan mig.  Ég stakk höfðinu niður í þvottaskálina.  Þá var eins og rödd gengi í gegnum meðvitund mína, og það var sem annarlegur rómur í röddinni: “Erfitt skal þér verða að spyrna á móti broddunum!”  Ég sagði: “Þetta er bara heyrnarblekking,” og ég flýtti mér að þvo mér.  Ég kraup svo niður til morgunbænar og bað um, að þetta væri ekki Guðs vilji.

Mér fannst hræðilegt að yfirgefa hið blómlega starf í Danmörk; og mér fannst heima vera ein andleg eyðimörk og ég var viss um, að íslenzkir drengir mundu taka þessu illa og hafa það í spotti.  Ég fann heldur enga hæfileika hjá sjálfum mér til þess að grundvalla og koma skipulagi í slíkan félagsskap.  ÉG þóttist viss um, að það mundi lenda allt í handaskolum og fann að mig vantaði svo ákaflega marga kosti, sem til þess þyrfti.  Mér fannst ég geta verið allgóður starfsmaður undir öðrum, en að eiga að standa fyrir og stjórna og leiða slíkan félagsskap, til þess fann ég enga getu hjá mér.  Mér óaði við að hugsa um það og lagði þetta allt fram fyrir Guð, og sagði að mér fyndist það ópraktískt að velja mann eins og mig.  Mig vantaði líka alla glæsimennsku og ytra útlit, sem þyrfti með til slíks starfs.  Það voru margar mótbárur, en stöðugt hljómuðu aftur og aftur orðin: “Erfitt skal þér verða að spyrna móti broddunum,” í sál minni; mér fannst stundum eins og hláturskeimur í þeim.  Og nú komst ég aftur inn í aðra andlega baráttu, ennþá svæsnari en hina fyrri.  Ég bað Guð um að vekja upp einhvern annan, mann með miklum hæfileikum, stóra persónum til þess að koma þessu máli af stað.  Ég átti í þessari baráttu í heila viku og lét engan vita um það, en margir tóku eftir, að það var eitthvað, sem að mér gekk, en ég vék á bug öllum spurningum í þá átt. –
Einu sinni eftir viku tíma tók ég bréfið og las það með gaumgæfni.  Þá sá ég eitt, sem ég hafði ekki tekið eftir áður.  Ég sá, að bréfið var skrifað 30. nóvember, og á bréfinu sá ég, að það var skrifað seint um kvöldið.  Það stóð í byrjun bréfsins: “Nú er ég var að enda við að skrifa með skipinu, þá datt mér í hug að hripa yður í flýti þessar línur” o.s.frv.  Skipin fóru þá kl. 12 á miðnætti.  Það sló niður í mig eins og elding.  Þann 30. um kvöldið varst þú að biðja um algerlega ótvíræða upplýsingu um, hvað þú ættir að gera, og lofaðir hlýðni; sama kvöldið kemur þessi hugsun og knýr lectorinn heima á Íslandi til að skrifa þér þetta bréf.  Svo datt mér í hug draumurinn um morguninn, sem ég fékk bréfið.  Hví hefur mig aldrei áður dreymt þessa drengi?  Endilega þennan morgun.  Ég var hræddur um, að allt þetta benti í þá átt, sem ég óttaðist mest.  Svo varð ég ásáttur við sjálfan mig, að ég skyldu skrifa lector og skýra honum frá öllum kringumstæðum og lýsa sjálfum mér og ókostum mínum, einnig leggja fram mínar kaþólsku tilhneigingar og alls ekki draga úr þeim, og leggja það svo algjörlega undir úrskurðarvald lectors.

Ég skrifaði svo í jólafríinu langt bréf og útmálaði þetta allt fyrir lector og gerði ekki minna úr mínum kaþólsku skoðunum en þær voru, og svo lýsti ég afstöðu minni til Jesú Krists og því, að hvað sem skoðunum liði væri hann hinn fasti virkileiki, sem allt yrði að miðast við.  Ég endaði bréfið með því að segja: “Ef þér viljið hafa mig heim með þessu öllu, þá segið til, og þá kem ég, en ef yður lízt ekki á það, þá segið mér það og ég yrði enn þá glaðari við það.” og bað Guð að stjórna huga lectors og svari hans, eins og bezt væri og hann sjálfur vildi.  Svo beið ég eftir svarinu.