Þegar sumarsólin kemur.
Sveitir gróa, túit og móar,
Fjallaliliðar fagran skrúða
Færast í með blóma nýjum,
Burt úr ryki bæjar taka
Brátt að fara stórir skarar;
Dreifast út um sjó og sveitir,
Sitt að finna brauð með vinnu.

Fjöldi’ af ungum fjelagsdrengjum
Fara’ i sveit og bjargar leita;
Fækkar i bænum, falla að vana
Fundahöld á virkum kvöldum.
Fjelagslífið fundið hefur
Framras þvi á vegum nýjum;
Farveg breytt i flestum háttum,
Fjelagsandinn sami að vanda.
(Úti og inni I. 2. 3.)

Margir eru þeir, sem fara burt úr bænum á vorin, en það eru þó ekki fáir drengir, sem verða að vera í bæjarrykinu allt sumarið.

Þegar geislar sumarsólarinnar flæða yfir landið, þá sjá þessir drengir sumarfegurðina breiðast yfir allt, en þó helst í fjarska. Þá vaknar sumarþráin í hjörtum þeirra. Til þess að hjálpa drengjunum til að fá þessari heilbrigðu þrá fullnægt, hefur K. F. U. M. reist sumarbúðir á tveim stöðum, í Kaldárseli og Vatnaskógi, til afnota fyrir fjelagsdrengi.

Vorið 1925 var bygður skáli í Kaldárseli. Hann er til sameiginlegra afnota fyrir fjelögin í Hafnarfirði og Reykjavík. Þangað fara flokkar næstum því um hverja helgi yfir sumartímann ýmist frá Hafnarfirði eða Reykjavík. Stundum fara flokkarnir á laugardagskvöldi og eru til sunnudagskvölds, eða þá á sunnudagsmorgni og eru þar þá einungis yfir sunnudaginn.

Margar sólskinsríkar ferðir er búið að fara þangað í sumar. Fagurt er að sjá glaðan drengjaskara leika sjer á grænum grundum. En fegursta stund hverrar ferðar er það, þegar allur hópurinn safnast saman á fögrum og kyrlátum stað, til þess, á kyrlátri stund, að beina huga sínum til Guðs. Á slíkum stundum, úti í fjallakyrðinni, vakna opt fagrir ásetningar í drengjahjörtum, ásetningar, er síðar geta orðið að blessunarríkri framkvæmd.

Til Kaldársels hafa einnig farið flokkar til vikudvalar, en sumarbúðirnar í Vatnaskógi hafa einungis verið notaðar fyrir slíka flokka. Á þeim undurfagra stað eru dagarnir fljótir að líða. Á morgnana vakna menn við fuglasöng. — Þegar allir eru komnir á fætur er safnast saman við fánastöngina, og fáninn dreginn upp undir hyllingarsöng. Þá er höfð stutt guðsþjónustustund. Lítill kafli úr Guðs orði lesinn og talað um það nokkur orð. Síðan er Guð beðinn að blessa daginn.

Þá er gengið til morgunverðar. Að honum loknum fara sumir með veiðistengur niður að vatninu til þess að veiða silunga, aðrir fara í leiki eða til einhverra starfa, sem fyrir liggja. Eftir miðdegisverð er það opt að allur flokkurinn fer í gönguför til nærliggjandi staða. T. d. upp á hæðirnar, sem eru þar í kring, til þess að skoða hið víðáttumikla og fagra útsýni, sem þar blasir við, eða farið er að skoða fossana, sem eru þar í grend. Í Vatnaskógi og í nágrenni við hann sjest að „fögur er vor fósturjörð um fríða sumardaga“.

Skömmu eptir kvöldverð eru allir kallaðir saman og fáninn dreginn niður um leið og allur flokkurinn syngur fánasöng. Áður en gengið er til náða er dagurinn endaður með guðsþjónustustund. Sálmasöngurinn hljómar í kvöldkyrðinni og talað er litla stund út frá Guðs orði, og bænin stígur upp til Guðs með þakklæti fyrir liðinn dag og fyrirbæn fyrir ástvinunum heima og fósturjörðinni. Þannig líða dagarnir og skilja eptir yndislegar endurminningar, sem lengi geymast.

Allt þar til í sumar hafa flokkarnir, sem farið hafa í Vatnaskóg, orðið að sofa í tjöldum, en í sumar var bygður svefnskáli. Laugardaginn 11. júní, fór 17 manna flokkur frá K. F. U. M. upp í Vatnaskóg, þar á meðal 7 trjesmiðir. Þeir fluttu með sjer efnið í skálann. Um kvöldið var byrjað að byggja og haldið áfram alla nóttina. Snemma næsta morgun var byggingunni algjörlega lokið — skálinn fullgjörður, með rúmum fyrir 18 manns til að sofa í. Allir, sem unnu að þessu, gáfu sína vinnu og lögðu fram krapta sína til verksins með mikilli gleði.
Rúmri viku síðar fór drengjaflokkur upp í Vatnaskóg og dvaldi þar vikutíma. Það voru sólríkir og ánægjulegir dagar. Annar flokkur fer væntanlega í lok þessa mánaðar.

Úr Mánaðarblaði KFUM, 1. júlí 1927.