Post 16.11-15

Nú lögðum við út frá Tróas, sigldum beint til Samóþrake en daginn eftir til Neapólis og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst við nokkra daga. Hvíldardaginn gengum við út fyrir hliðið að á einni en þar hugðum við vera bænastað. Settumst við niður og töluðum við konurnar sem voru þar saman komnar. Kona nokkur úr Þýatíruborg, sem sótti samkundu Gyðinga, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar og hún bað okkur: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar fyrst þið teljið mig trúa á Drottin.“ Þessu fylgdi hún fast fram.

Hugleiðing

Lýdía var fyrsta manneskjan sem við vitum um sem tók trú á Jesú í Evrópu, en fram að því hafði kristni dreifst um Asíuríkin við botn Miðjarðarhafs og til Afríku. Það er merkilegt í Biblíunni að oft eru það konur sem ganga á undan með góðu fordæmi. Það voru konur sem sögðu fyrstar frá upprisu Jesú, það voru konur sem fyrstar settust niður í Evrópu til að heyra Pál segja frá Jesú. Það er verslunarkonan Lýdía sem fyrst tekur trú á Krist í Evrópu og byrjar kirkjustarfi í húsinu sínu í Filippí.

Kirkjan sem Lýdía stofnaði var kröftug, gjafmild og full af gleði líkt og við getum séð í bréfi sem Pál lærisveinn sendi síðar til kirkjunnar, en bréfið er í Nýja testamentinu og er kallað Filippíbréfið.

Í því bréfi, sem Lýdía fékk til kirkjunnar sinnar, segir:

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.

Bæn

Guð, þakkir fyrir allar konurnar sem hafa heyrt þitt orð og sagt frá þér. Hjálpaðu okkur að hlusta á orðið þitt. Takk fyrir að við megum gleðjast yfir því að þú ert alltaf með okkur. AMEN.