Fræðsluefni sumarbúða KFUM og KFUK 2011 er endurútgáfa fræðsluefnis frá sumrinu 2008. Höfundur fræðsluefnisins 2008 var Henning Emil Magnússon og hefur hann veitt góðfúslegt leyfi fyrir endurútgáfu efnisins með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á efninu.

Breytingarnar og viðbæturnar eru þó alfarið á ábyrgð Jóhanns Þorsteinssonar sem hefur í samvinnu við Kristnýju Rós Gústafsdóttur og Jón Ómar Gunnarsson gert ýmsar breytingar á efninu. Biblíutextar og röð þeirra er sú sama og áður.

Fræðsluefnið byggir á því að kynna fyrir börnunum grunnatriði kristinnar trúar. Börnin dvelja ekki lengi í sumarbúðunum en vonandi kviknar neisti trúar á þeim tíma. Fræðsluefnið fjallar um Biblíuna, bænina, Guð sem skapara, Jesú sem frelsara og samfélag trúaðra.

Undirbúningur forstöðumanna og foringja skiptir ætíð miklu máli þegar kemur að því að miðla fræðslu til barnanna. Góður undirbúningur er lykillinn að góðum árangri og fjölbreyttar aðferðir og virkni hópsins spila þar líka stóran þátt. Í því sambandi er mikilvægt að minna á að tæknileg vandamál við notkun á skjávarpa eða hátölurum getur algjörlega gleypt athygli barnanna og gert að engu innihald þeirrar sögu sem til umfjöllunar er. Þar skiptir undirbúningurinn líka máli svo allt megi ganga eðlilega fyrir sig.

Rétt er að minna á þemahugmyndina sem fylgir efninu og er aftast í fræðsluheftinu. Hugmyndin er einföld og getur hjálpað börnunum að tengja saman sögurnar og fá heildstæðari mynd af fræðslunni.

Í Filippíbréfinu 4. kafla og 13. versi segir: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Leggjum því hverja stund í Drottins hendur og biðjum um hans leiðsögn og styrk. Hann mun leiða þig í því hlutverki sem þú hefur tekist á hendur.