Í þessu fræðsluefni munum við fjalla um bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum, Faðir vor. Efninu er skipt upp í 12 samverur. Upphafssamveran fjallar um bænir almennt. Þá er notast við skiptingu og skýringar Marteins Lúther í riti sínu Fræðunum minni, en þar skiptir hann Faðir vorinu í níu hluta. Í lokin er síðan ein samvera sem ber heitið Amen og önnur sem fjallar um aðventuna, biðina og bænir.

Hver samvera skiptist í nokkra liði. Fyrst kemur útskýring Lúthers á viðkomandi lið. Þessu næst förum við í lærdómsmarkmið samverunnar. Þá eru taldir upp nokkrir biblíutextar sem tengjast efninu. Í tengslum við flestar samverurnar er bent á mismunandi nálganir að efni dagsins. Efninu fylgir stutt hugleiðing/drög að hugleiðingu, við vísum í kafla í framhaldssögu haustsins sem tengjast efni dagsins og endum á að benda á hjálparefni/ítarefni og söngva. Efninu fylgja síðan verkefnablöð með ýmsum gögnum sem tengjast fræðslustundunum.

Fræðsluefnið í ár er endurútgáfa á eldra efni frá árinu 2006, lítillega löguð og endurbætt. Til hliðsjónar við gerð efnisins 2006 var m.a. stuðst við boðunarefni KFUM og KFUK frá því á 90 ára afmælisárinu 1989. Þá var leitað í smiðju lútersku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Við öfluðum einnig fanga í eldra boðunarefni félagsins okkar ásamt því að notast við hinar og þessar hugmyndir sem erfiðara er að staðsetja. Samverurnar „Amen“ og „Aðventa“ eru þó nýjar.

Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum hina helgu bæn þegar þeir leituðu til hans með bænahald sitt. Í ritinu Didache frá 2. öld eru kristnir menn hvattir til þess að biðja Faðir vor þrisvar á dag. Að mati sumra kirkjufeðranna var Faðir vorið þannig ein af helstu forsendum heilbrigðs trúarlífs. Sú sýn hefur komið og farið í kirkjusögunni en mikilvægi bænarinnar sem Jesús kenndi verður seint ofmetið.

Í þessu efni er reynt að nálgast helstu meginsannindi trúar okkar út frá Faðir vorinu. Við fjöllum um synd og fyrirgefningu, ábyrgð okkar á náunganum og elsku þess Guðs sem er skapari allra hluta.

Efnisyfirlit

Sýnileiki orðs Guðs

Á fundum og samverum KFUM og KFUK skal Guðs orð ávallt haft um hönd. Við gerð þessa boðunarefnis er hugleiðingin ekki öll byggð á biblíulestri eða frásögn úr Biblíunni þó alltaf sé gengið út frá einni bæn Faðir vorsins. Í stað lestrar/frásagnar úr Biblíunni eru ungmennin stundum látin horfa á myndband, leysa verkefni, leira eða útbúa veggmynd svo eitthvað sé nefnt. Því fer vel á því að hefja hvern fund á upplestri úr Biblíunni. Þar má notast við hluta af biblíutextum dagsins eða þá bæn Faðir vorsins sem fjalla á um á fundinum. Mikilvægt er að þátttakendur á fundinum sjái að lesið er úr Biblíunni og hún sé höfð sýnileg á fundinum.

Framhaldssaga með efninu

Sagan „Við Guð erum vinir!“ er sérstök framhaldssaga þessa hausts. Sagan er byggð upp á sjálfstæðum köflum sem taka á einstökum þáttum Faðir vorsins. Í efninu er köflunum raðað niður á hverja samveru í samræmi við efni viðkomandi fundar. Þannig myndar framhaldssagan samhengi milli funda og undirstrikar jafnframt viðfangsefni dagsins. Þar sem farið er fram og til baka í bókinni til að fundarefni og framhaldssaga myndi samhengi er mikilvægt að lesa söguna yfir áður en hún er sögð, ef í henni koma fyrir vísanir í kafla sem á enn eftir að lesa.

Sýnileiki félagsins okkar

Við hvetjum leiðtoga til að hafa merki KFUM og KFUK sýnileg á hverjum fundi.

Við vonum að þetta efni nýtist leiðtogunum í starfi KFUM og KFUK vel. Megi það auðvelda þeim að varpa ljósi á inntak kristinnar trúar og hjálpa börnunum að læra hvernig við tilheyrum Kristi og megum varpa áhyggjum okkar á Guð sem er skapari heimsins.