Lúk 18.9-14

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra:  „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

Hugleiðing

Jesús talaði oft um bænina. Sagan sem við heyrðum var um farísea, sem voru álitnir trúræknir og réttlátir og um tollheimtumann, en það var ekki talið gott og göfugt starf.

Faríseinn fór í musterið og þakkaði Guði fyrir hversu frábær hann var, betri en flestir aðrir menn. Á sama tíma skammaðist tollheimtumaðurinn sín og bað Guð um að fyrirgefa sér.

Fólk á tímum Jesú skyldi örugglega vel hvað var í gangi í sögunni, það var líklega sammála því að farísear væru góðar manneskjur en tollheimtumenn ekki, þannig að lýsing Jesú á bænum þeirra var alveg rétt. En síðan kemur Jesús með óvænta túlkun.

Hann segir fólkinu, sá sem er sífellt upptekinn af eigin ágæti og því hversu frábær hann er, á erfitt með að fá fyrirgefningu hjá Guði og að skilja elsku Guðs. En, segir Jesús, sá sem viðurkennir að gera mistök og veit að hann þarf að gera betur, skilur líka betur þörfina fyrir Guð sem elskar okkur eins og við erum.

Ef við upphefjum okkur á kostnað annarra þá er auðvelt að gleyma að við erum öll Guðs börn, en ef við munum eftir að við gerum mistök, þá er auðveldara að skilja elsku Guðs sem er skilyrðislaus.

Bæn

Guð, hjálpaðu okkur að vera auðmjúk og kærleiksrík í garð annarra. Guð, þakka þér fyrir að þú elskar okkur eins og við erum. AMEN.