Í gær mættu 34 hressar stelpur til leiks að Hólavatni. Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið með besta móti í gær fór dagskráin á fullt strax eftir hádegið. Þar sem þessi flokkur er svokallaður “Listaflokkur” vinnum við á hverjum degi eitthvað listrænt og fengu stelpurnar í gær að velja á milli söng-, leiklistar- og myndlistarhóps. Það er greinilegt að hér eru miklir hæfilekar á ferð og sýndu hóparnir afrakstur sinn á kvöldvöku í gærkvöld. Margar voru spenntar að prófa bátana sem voru opnir eftir kaffi en sökum hvassviðris breyttist bátsferðin hjá flestum í mikið ævintýri. Flestar komu vel blautar en með bros á vör í land. Kvöldið endaði eins og venja er í sumarbúðunum með kvöldvöku og hugleiðingu út frá Guðs orði. Stlepurnar voru fljótar að sofna enda vel þreyttar eftir annasaman dag. Þær voru svo ræstar kl. hálfníu í morgun. Dagurinn hér á Hólavatni hefst á fánahyllingu, morgunverði og morgunstund þar sem stelpurnar fengu í dag að kynnast Nýja testamenntinu sínu betur og lærðu m.a. að fletta upp í því. Eftir hádegið tók svo við hópastarf og þegar þetta er skirfað eru allar úti í foringjaleit sem er nk. ratleikur. Um hádegið fór loksins sólin að láta sjá sig og við vonum að hún verði hér þar sem eftir er vikunnar.

Bestu kveðjur frá Hólavatni,
Helga Vilborg forstöðukona