Forstöðukona vakti stúlkurnar kl. 8:29 með blíðum orðum og söng. Að lokinni fánahyllingu kom í ljós að þetta var enginn venjulegur dagur. Allt var í rugli. Foringjar í öfugum fötum og enginn morgunmatur. Ráðskona bauð upp á kvöldmat í morgunsárið – heita súpu og smurt brauð. Í morgunstund var fjallað um þema vikunnar, bænina, og það að orða hugsanir sínar í samtali við Guð. Allar stúlkur fengu hver sína bænabók, bók sem þær skrifa, teikna og líma í bænir, sem þær orða sjálfar eða nota vísur eftir aðra. Klukkan tólf var borinn fram morgunmatur og í kjölfarið hófst vatnafjör þar sem sett var upp vatnsrennibraut í brekkunni norðan við húsið. Klukkan þrjú var svo borinn fram hádegismatur, sóðajói (hamborgarabrauð með nautahakki og grænmeti eftir smekk). Hópurinn hvíldi sig svo aðeins eftir matinn en síðan var farið í Drulluvík þar sem sumir syntu í vatninu, aðrir drullumölluðu en aðrir létu sólbað nægja. Á slaginu sjö var boðið upp á eftirmiðdagshressingu sem var græn kaka með súkkulaðikremi og bleikar lummur. Kvöldvakan hófst í kjölfarið þar sem foringjar og stúlkur sýndu snilldarleg tilþrif, bæði í söng- og leiklist. En þá gerðist nokkuð óvænt. Hermannaleikurinn hófst með látum og á svæðið mættu hermenn sem reyndu að fanga stúlkurnar en áttu að reyna að komast í flóttamannabúðir sem búið var að setja upp lengst uppi í hlíð. Þreyttar stúlkur komu svo í síðkvöldhressingu sem voru nýbakaðir pizzusnúðar, smurt brauð og mjólk. Bænaforingjar fylgdu þeim svo í herbergin og alger kyrrð og ró var komin í öll rúm rétt fyrir miðnætti.

Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona