Það voru 34 hressar stúlkur sem komu á Hólavatn í gær í skínandi sól og ferskri golu. Eftir að hafa komið sér fyrir og myndað hópa voru borðuð grænmetisbuff með karrýsósu í hádegismat. Eftir hádegi hófst léttur leikur sem fól meðal annars í sér að hver hópur sagaði niður eitt tré og bútaði það niður til að nota í bálköst. Í drekkutímanum voru nýbakaðar bollur og súkkulaðikaka og svo tók við vatnafjör fram að kvöldmat. Eftir kvöldmat var kvöldvaka með söng, leikritum og öðrum hressilegum uppákomum foringjanna. Eftir hugleiðingu héldu stúlkurnar að nú væri komið að háttatíma – sem var fjarri lagi. Þá hófst ævintýraleikur sem fólst í að hver hópur fór á fimm stöðvar (úti og inni) sem lauk með varðeldi (af mjög sérstakri gerð). Þegar inn var komið voru grillaðir sykurpúðar í kamínunni og svo var háttað og tennur burstaðar. Rétt um það bil sem ró var að færast yfir skelltu foringjar í pottum og pönnum og serkjó (náttfatapartý) hófst með dúndrandi tónlist og viðeigandi tjútti. Allir voru komnir í koju rétt upp úr hálf eitt og sofnuðu vært eftir hressilegan fyrsta dag hér á Hólavatni.

Kveðja,
Auður Pálsdóttir forstöðukona