Þá koma fréttir úr skóginum frá fimmta degi.

Héðan er allt þrusugott að frétta. Drengirnir voru keyrðir í gang kl 8:30 og hófst dagurinn með morgunmat, morgunstund, morgunfánahyllingu og morgunvakt. Þétt dagskrá var fram eftir degi þar sem boðið var upp á hið venjulega, frjálsar íþróttir, fótbolta og báta. Einnig bættist við tónlistarsmiðja þar sem drengirnir fengu að spreyta sig á hinum ýmsu hljóðfærum.

Tveir vaskir foringjar buðu upp á göngu upp á Kambinn, sem er fjall hér til móts við Vatnaskóg. Tekur það um það bil 5 tíma að ganga fjallið upp og niður aftur. Gangan heppnaðist gríðar vel og komu drengirnir stoltir og ánægðir til baka sem í hana fóru.

Um kvöldið var svo haldin hæfileikasýning þar sem drengirnir fengu tækifæri til að sýna hæfileika sína í hinum ýmsu hlutum.

Búið er að uppfæra myndasíðuna, hvet ykkur til að skoða hana.

Hlýjar kveðjur (mjög hlýjar, því það er grillandi hiti hérna og blankalogn). Arnór og Hilmar