Héðan úr Vatnaskógi er allt gott að frétta. Veður hefur verið ágætt og stemning í hópnum almennt góð.
Dagskráin er fjölbreytt sem fyrr og geta drengirnir valið úr ýmsum dagskrárliðum. Boðið var upp á gönguferð út í Oddakot, litla sandströnd sem við höfum hér við Eyrarvatn. Þar gátu drengirnir vaðið langt út í vatn og skemmt sér konunglega. Fótboltinn hélt áfram ásamt frjálsum íþróttum, þar sem boðið var upp á Víðavangshlaup, hlaup hringinn í kringum vatnið. Hingað kom líka góður gestur og bauð upp á kassaklifur sem heppnaðist með eindæmum vel. Kvöldvakan var hress og skemmtileg að vanda en eftir hana var farið í kvöldkaffi.
Eftir kvöldkaffið tók við miðnæturhermannaleikur, leikur sem hefur lengi verið vinsæll hér í Vatnaskógi þar sem drengirnir fá klemmur á handlegg sér sem táknar þeirra líf. Þeir eiga síðan að hlaupa um og ná klemmum af andstæðingum sínum og setja ofan í fötu sem er á þeirra heimastöð. Leikurinn fer fram í Oddakoti og því tekur svolítinn tíma að rölta út eftir. Ró var því ögn síðar en venjulegt er eða kl. 01:00.
Við færum góðar kveðjur heim. Arnór og Hilmar, forstöðumenn.