Post 6.8-15; 7.54-8.3

Stefán var fullur af náð og krafti og gerði undur og tákn mikil meðal fólksins. Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu en aðrir frá Kilikíu og Asíu og tóku að þrátta við Stefán. En þeir gátu ekki staðið gegn þeirri visku og anda sem hann talaði af. Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: „Við höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði.“ Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið. Þá leiddu þeir fram ljúgvotta er sögðu: „Þessi maður talar sífellt gegn þessum heilaga stað og lögmálinu. Við höfum heyrt hann segja að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum sem Móse hefur sett okkur.“ Allir sem í ráðinu sátu störðu á hann og sáu að ásjóna hans var sem engils ásjóna. …

Þegar ráðsherrarnir heyrðu þetta trylltust þeir og gnístu tönnum gegn Stefáni. En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði:

Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.

Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni er Sál hét. Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Þegar hann hafði þetta mælt sofnaði hann.

Sál lét sér vel líka líflát hans.

Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir nema postularnir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu. Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla. En Sál gerði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.

Hugleiðing

Sögurnar í Biblíunni eru ekki allar fallegar, sumar eru sorglegar eða ósanngjarnar, jafnvel skelfilegar. Sagan af Stefáni píslarvotti er ein af erfiðu sögunum, en píslarvottur merkir einmitt einstaklingur sem deyr vegna trúar sinnar og/eða skoðanna.

Stefán var óhræddur við að segja frá Jesú. Þau sem trúðu ekki sögunni um Jesú og fannst hún óþægileg vildu banna honum að segja frá trú sinni, en Stefáni fannst mikilvægt að allir fengu að heyra góðu fréttirnar um Jesú sem elskar alla jafnt.

Á hverjum degi, jafnvel í dag, er fólk fangelsað, selt í þrældóm og jafnvel tekið af lífi vegna trúarskoðanna. Við á Íslandi búum við trúfrelsi þar sem kristin trú sem við flest aðhyllumst er ráðandi trúarskoðun, þannig að við þurfum ekki að óttast mikið. Það er samt ekki alstaðar þannig í heiminum, sums staðar getur verið lífshættulegt að segja frá trú sinni á Jesú.

Sagan um Stefán á að minna okkur hér á Íslandi að að við þurfum að virða trúarskoðanir annarra, ekki síst þær skoðanir sem eru ólíkar okkar eigin. Í landi þar sem okkar eigin trú er ráðandi, er nefnilega meiri hætta á að aðrir séu ofsóttir í nafni okkar trúar, en að við lendum í ofsóknum.

Bæn

Kærleiksríki og alráðandi Guð, kenndu okkur að virða aðra, elska aðra, sérstaklega þau sem trúa ekki eins og við. Vertu með öllum sem búa við ofsóknir vegna skoðana og trúar sinnar. AMEN.