2Mós 1.22-2.10

En faraó gaf allri þjóð sinni fyrirmæli og sagði: „Öllum drengjum, sem fæðast meðal Hebrea, skuluð þið kasta í fljótið en öllum stúlkum megið þið gefa líf.“

Maður nokkur af ætt Leví fór og tók sér eiginkonu af sömu ætt. Konan varð þunguð og eignaðist son. Þegar hún sá hve efnilegur hann var faldi hún hann í þrjá mánuði. Þegar hún gat ekki leynt honum lengur fékk hún sér körfu úr sefi handa honum. Hún þétti hana með biki og tjöru, lagði drenginn í hana og setti körfuna út í sefið við árbakkann. En systir hans stóð þar álengdar til að fylgjast með hvað um hann yrði.

Þá gekk dóttir faraós niður að ánni til að baða sig en þjónustustúlkur hennar gengu eftir árbakkanum. Hún kom auga á körfuna í sefinu og sendi þjónustustúlku sína eftir henni. Þegar hún opnaði körfuna sá hún grátandi dreng í henni. Hún vorkenndi honum og sagði: „Þetta er einn af hebresku drengjunum.“ Þá spurði systir hans dóttur faraós: „Á ég að fara og kalla á hebreska brjóstmóður fyrir þig?“ Dóttir faraós svaraði: „Já, gerðu það.“ Stúlkan fór og kallaði á móður drengsins. Dóttir faraós sagði við hana: „Farðu með þennan dreng og hafðu hann á brjósti fyrir mig og ég skal launa þér það.“ Konan fór með drenginn og hafði hann á brjósti. Þegar drengurinn stálpaðist fór hún með hann til dóttur faraós sem tók hann í sonar stað. Hún gaf honum nafnið Móse og sagði: „Því að ég dró hann upp úr vatninu.“

Hugleiðing

Það eru ekki allar sögurnar í Biblíunni fallegar. Sagan af fæðingu Móse er saga af úrræðragóðri móður sem gerir allt hvað hún getur til að bjarga barninu sínu, jafnvel þó það geti verið hættulegt. Hún tekur barnið og setur í körfu og lætur það fljóta niður ánna í von um að einhver finni barnið áður en það deyr. Því hún veit að ef barnið verður um kyrrt þá verði það myrt.

Dóttir konunnar og systir Móse fylgist með körfunni úr öruggri fjarlægð og var sjálfsagt tilbúin til að grípa inn í ef engin myndi finna barnið, en það undarlega gerist að dóttir konungsins sem hafði krafist þess að allir nýfæddir drengir skyldu drepnir, finnur Móse og ákveður að ala hann upp sem sitt barn og það sem meira er mamma Móse fær vinnu við að passa barnið sitt. Auðvitað er þetta ekki eins og það á að vera, enda skelfilegt og ljótt þegar valdafólk kallar eftir ofbeldi og morðum. En fyrir Móse þá fór allt á besta veg miðað við aðstæðurnar sem hann fæddist í. Hann ólst meira segja upp í höllinni hjá konunginum sem sagðist vilja drepa öll börn eins og hann.

Bæn

Guð, gefðu frið og vináttu milli fólks og þjóða. Vertu með þeim sem búa við hatur og illsku og gefðu þeim frið og lausn. AMEN.