Að börnin læri það að Jesús elskar alla, sama hver bakgrunnur fólks kann að vera og við eigum að koma vel fram við aðra.

Lúk 19.1-10

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“

Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Hugleiðing

Sakkeus starfaði sem yfirtollheimtumaður, Það var vel þekkt á þessum tíma að tollheimtumenn sögðu fólkinu oft að það þyrfti að borga meira en því bar. Tollheimtumennirnir settu síðan það sem fólkið borgaði aukalega beint í eigin vasa. Þannig stálu þeir frá fólkinu án þess að fólkið gæti gert nokkuð við því. Þeir voru því yfirleitt mjög óvinsælir og Sakkeus var engin undantekning.

Sakkeus var forvitinn um hver Jesú var – en hann var lítill, svo að hann átti erfitt með að sjá Jesú fyrir allt fólkið sem var í kringum Jesú. Enginn vildi hleypa honum fram hjá sér svo að hann gæti séð betur því að hann var óvinsæll og fólk vildi ekki hjálpa honum. Hann ákvað þá að klifra upp í tré til að sjá Jesú.

En Jesús – Hann var ekki eins og annað fólk. Jesús tók eftir Sakkeusi upp í trénu og ákvað að dvelja í húsi Sakkeusar þennan dag. Jesús vissi alveg hver Sakkeus þó þeir hefðu ekki hist áður. Jesús vissi að Sakkeus hefði stolið frá mörgum í gegnum tíðina en ákvað samt að eyða tíma með honum. Þegar Jesús horfði á Sakkeus þá dæmdi hann ekki. Jesús elskaði alla.

Jesús horfir ekki á það sem að við höfum gert rangt í gegnum tíðina. Hann elskar okkur og er tilbúinn að fyrirgefa okkur syndir okkar, öll mistök okkar og vill hjálpa okkur að lifa betra lífi. Efftir að Sakkeus hitti Jesú, þá ákvað Sakkeus að gefa fátækum helming eigna sinna og borga öllum sem hann hafði stolið frá ferfalt til baka. Ef að við leyfum Jesú að hafa áhrif á líf okkar, þá eignumst við kraft og þor til að lifa betra lífi og koma betur fram við hvort annað.

Spurning

Hver var týndur í sögunni í dag? Erum við stundum týnd?

Bæn

Kæri Jesús.

Hjálpaðu okkur að sjá þig í þeim sem við mætum. Vertu með okkur og kenndu okkur að koma vel fram við aðra, sína öllum vináttu og ást. AMEN.