Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Minnisvers
Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda. Matt. 28:18-19.

Aðalatriði
Kristin trú er boðandi trú og því eru allir kristnir menn og konur kallaðir til að segja frá Kristi og boða trú.

Hugleiðing
Jesús sagði: Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Þessi orð Jesú eru ástæða þess að að við förum út um allan heim til þess að segja frá kristinni trú.

Kristniboð er að segja frá trú sinni – að boða kristna trú.

Í sunnudagskólanum, í KFUM og KFUK starfi, í kirkjunni, með því að tala við vini sína um trúna og að vinna í löndum þar sem að fólk hefur aldrei heyrt um Jesú. Allt þetta er kristniboð.

Jesús sagði þessi orð sem við heyrðum hérna áðan við lærisveina sína og þeir gerðu eins og hann sagði. Þeir ferðuðust um allt og sögðu frá. Lærisveinarnir voru eiginlega ekki með neitt með sér þegar þeir lögðu af stað til þess að segja frá Jesú. Í Markúsarguðspjalli segir Jesús þeim hvað þeir eigi að taka með sér:

Jesús fór nú um þorpin þar í kring og kenndi. Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum en ekki tvo kyrtla. Mark. 6:7-9.

Þannig fréttu fleiri og fleiri frá kraftaverkum Jesú og að hann boðar eilíft líf á himnum. Lærisveinarnir áttu að treysta Jesú og það hefur svo sannarlega virkað því að frá því að þessir 12 menn fóru af stað er kristin trú orðin að fjölmennasta trúarbragði heims, og þeir sem fóru af stað með ekkert nema trú sína á Guð til að treysta á. Þeir höfðu ekki einu sinni stað til þess að sofa á og engan pening.

En þetta var ekkert einfalt fyrir fyrstu kristnu mennina, þeir voru ekki alls staðar velkomnir. Kristnir menn áttu sér leynitákn í upphaf kristninnar sem var fiskur. (sjá mynd af ictus) Þeir þurftu að hafa leynitákn vegna þess að þeir voru ofsóttir. Það er að segja að þeir voru fangelsaðir og jafnvel líflátnir fyrir trú sína. Þeir notuðu þetta leynitákn sem þeir teiknuðu með skónum í sandinn og þeir sem þekktu leynitáknið vissu hvað það þýddi en aðrir héldu bara að viðkomandi væri að teikna eitthvað bull. En kristnir menn gáfust ekki upp, þeir sögðu frá trú sinni og í dag er kristin trú fjölmennasta trúarbragð í heimi. Við þurfum ekki að vera hrædd um að vera sett í fangelsi hérna á Íslandi fyrir trú okkar því hérna er trúfrelsi. Það er samt ekki þannig allstaðar í heiminum. Sumstaðar er bannað að vera með trúboð eins og t.d. í Kína.

Þú ert kristniboði í þínu lífi.

Á Íslandi eru til samtök sem heita Kristniboðssambandið og þau senda kristniboða til landa þar sem fólk þekkir ekki kristna trú. Kristniboðið aðstoðar líka fólk við að setja upp skóla, skipuleggja heilsugæslu og kenna um hreinlæti o.fl.

Umræðupunktar

  • Hvað er kristniboði?
  • Svar: Það að segja frá Jesú Kristi
  • Hverjir geta verið kristinboðar?
  • Svar: allir geta verið kristniboðar.
  • Hvað er það mikilvægasta í kristinni trú?
  • Jesús talaði um æðsta boðorðið. Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum og náungann eins og sjálfan þig.

Lokaorð fyrir bæði yngri og eldri deildir 
Það geta allir verið kristniboðar. Þú ert mikilvægur kristniboði. Elska skaltu náungan eins og sjálfan þig sagði Jesús. Við erum líka kristniboðar í okkar daglega lífi, við erum fyrirmyndir í öllu því sem við gerum.

Hvernig getum við verið góðar fyrirmyndir?

  • Hvað getum við gert þegar það er verið að gera lítið úr einhverjum í skólanum? T.d. hjálpað viðkomandi – segja frá.
  • Hvernig getum við verið góðar fyrirmyndir inn á heimilum okkar?. T.d .gengið frá eftir okkur.
  • Er erfiðara að vera kurteis og sýna tillitsemi í skólanum eða heima?
  • Hvernig getum við sagt vinum okkar frá því að við séum kristin? Við getum t.d. sagt að trúin skipti okkur miklu máli. Eða einfaldlega: Ég trúi á Guð.

Saga af kristniboðsakrinum

Kristniboðar eru þeir sem segja frá Jesú í orði og verki. Sumir kristniboðar ferðast um langan veg frá Íslandi til að miðla kærleika Krists. Það er nefnilega þannig að víða í heiminum býr fólk og jafnvel heilu þjóðirnar sem hafa aldrei heyrt talað um kærleiksríkan Guð. Kristniboðssambandið er íslenskt félag sem hefur það að markmiði að allir í heiminum fái tækifæri til að kynnast Jesú. Fyrstu íslensku kristniboðarnir fóru til Kína og störfuðu þar í 15 ár eða allt þar til kommúnistar komust til valda og bönnuðu kristniboð. Þá flutti íslenska kristniboðið starf sitt til tveggja landa í Afríku, Eþíópíu og Keníu og hefur m.a. byggt þar 200 skóla og 100 sjúkraskýli og heilsugæslustöðvar. Í Afríku búa margir afar frumstæðir þjóðflokkar sem hafa engu breytt í lifnaðarháttum sínum í þúsund ár. Fyrir okkur sem búum á Íslandi þar sem flestir fá nóg að borða, eiga hlýtt rúm að sofa í og geta gengið í skóla er erfitt til þess að hugsa að sumstaðar deyja lítil börn úr hungri og sjúkdómum sem auðvelt þætti að lækna á Íslandi. Hér á eftir fer saga lítils drengs sem heitir Jónas og fæddist í Voitó, sem er hálfgerð eyðimörk í suður Eþíópíu. – Matt. 28:18 …

Ég heiti Jónas og fæddist í pínulitlu þorpi í fjöllunum fyrir ofan Voitó-dalinn. Venjulega búa fjölskyldur saman í litlum strákofum en á lóðinni okkar voru tveir strákofar vegna þess að pabbi minn á tvær konur og þær bjuggu í sitthvorum kofanum, ég svaf að sjálfsögðu í sama kofa og mamma. Þarna er enn ekkert rafmagn, sjónvarp, tölvur eða neitt svoleiðis. Ekki einu sinni rennandi vatn. Mamma og systur mínar fara á hverjum degi til að grafa eftir vatni, það tekur langan tíma, svo þurfa þær að safna eldiviði og elda graut, þ.e.a.s. ef það var til korn, stundum seldi pabbi korn til að geta keypt sér brennivín og þá fengum við stundum ekkert að borða. Ég á margar systur en bara einn lítinn bróður, svo það kom í minn hlut að gæta geitanna. Geitur eru skemmtileg dýr og ég þekkti þær allar með nafni. Dagarnir voru hver öðrum líkir og mér leið ágætlega sérstaklega ef til var hunang og við fengum að drekka geitamjólk með grautnum. Það rignir ekki oft í Voitó en þegar það gerist þá rignir mikið, og í rigningu þá vilja geiturnar bara vera heima að kúra svo ég nýtti daginn til að fara niður á sléttuna en þangað er næstum tveggja tíma ganga. Þegar ég kom niður á sléttuna heyrði ég söng og trumbuslátt, venjulega varð ég hræddur þegar ég heyrði trumbuslátt því það var oftast merki um fórnarathöfn og þá vissi ég að pabbi myndi drekka mikið brennivín og fórna til Meshe sem er andi forfeðranna. Ef maður braut gegn reglum þjóðflokksins kallaði maður yfir sig bölvun Meshe og eina leiðin til að losna við bölvunina var að fórna til Meshe. En trumbuslátturinn sem ég heyrði núna var öðruvísi en ég hafði áður heyrt og inn á milli ómuðu glaðværar raddir. Ég gekk á hljóðið sem barst úr bárujárnsklæddu húsi, eftir sönginn stóð brosandi maður á fætur og byrjaði að tala um að hann væri ekki lengur hræddur við Meshe vegna þess að til væri einhver miklu sterkari, að hið góða í þessum heimi væri sterkara en hið illa og að þessi kærleikur ætti sér nafn sem væri Jesús Kristur. „Jesús hefur sigrað Meshe og alla hans djöfla, við þurfum ekki lengur að fórna til Meshe, því Jesús tók á sig syndir okkar á krossinum. Hver sem á hann trúir mun lifa að eilífu. Vilt þú fylgja Jesú?“ Ég hafði aldrei áður heyrt talað um Jesú en spurningin „vilt þú fylgja Jesú?“ endurómaði í huga mér alla leiðina heim. Á leiðinni heim stoppaði ég fyrir framan stórt tré og starði á það tignarlegt og með voldugar rætur sem ég vissi að náðu djúpt niður í jörðina. „Af hverju er ég ekki með svona rætur?“ spurði ég sjálfan mig upphátt og horfði niður á granna fótleggi mína, maðurinn í kirkjunni hafði talað um að sumir væru gróðursettir í Kristi Jesú, svona eins og hríslur eru gróðursettar. Á þessari stundu vissi ég að ég vildi verða stór og sterkur eins og tréð fyrir framan mig en gróðursettur í Kristi Jesú.

Í Voitó eru engin nöfn yfir vikudagana svo það var í fyrstu erfitt fyrir mig að vita hvenær það væri aftur fólk í bárujárnsklædda húsinu að tala um Jesú. Svo var það vandræðalegt að biðja systur mínar um að gæta geitanna meðan ég færi niður á sléttu. Ég vildi ekki segja þeim hvað ég væri að fara að gera en pabbi minn frétti það og varð reiðari en ég hafði nokkurn tíma séð hann. Ég hélt samt áfram að fara því ég vildi kynnast betur þessum anda sem var sterkari en Meshe. Guð er andi og Jesús Kristur sonur hans. Líf mitt breyttist þegar ég kynntist Jesú þá vissi ég að ég þyrfti ekki lengur að lifa í ótta við Meshe, því Jesús er sterkari og elskar mig svo mikið að hann var reiðubúinn að deyja fyrir mig. Það er ekki hægt að færa stærri fórn en það.

Síðar frétti ég að kristniboðar frá landi sem heitir Ísland hefðu fyrstir komið með góðu fréttirnar um Jesú til Voitó. Það er það besta sem hefur komið fyrir í Voitó. Þegar ég varð stærri hjálpuðu kristniboðarnir mér að ganga í skóla, mér gekk vel í skólanum og varð fyrsti maðurinn frá Voitó til að ljúka háskólanámi. Nú er ég prestur í Voitó, vegna þess að ég vil að allir í þjóðflokknum fái að kynnast Jesú. Kærar þakkir til þeirra sem hlýddu kalli Guðs.

Hugmynd að fundarefni

Það getur verið áhugavert að fá heimsókn frá Kristniboðssambandinu eða jafnvel einhvern sem hefur farið í KRUNG ferð til Eþíópíu eða Kenýju.