„Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast.“  5. Mós 31.8

Einu sinni endrum fyrir löngu bjó músafjölskylda í stóru píanói. Píanóið var heimurinn þeirra og þeim fannst hann dásamlegur. Þau elskuðu tónlistana sem hljómaði um píanóið og fyllti myrkrið af fögrum tónum. Mýsnar dáðust að tónlistinni og þeim sem skapaði tónlistina jafnvel þó þau hefðu aldrei séð skaparann. Þrátt fyrir að vera ósýnilegur þá var skapari tónlistarinnar svo nálægur að þeim fannst hann vera hjá sér. Mýsnar töluðu oft um þennan ósýnilega spilara og þær ímynduðu sér hvernig hann liti út.

Einn góðan veðurdag ákvað ein huguð mús að skoða sig betur um í píanóinu, en mýsnar héldu sér neðst í píanóinu og hættu sér ekki ofar. Hugaða músin laumaðist ofar í píanóið. Þegar hún snéri aftur síðar um daginn var hún þungt hugsi, hún hafði komist að því hvernig tónlistin varð í raun og veru til. Hún hafði séð að í píanóinu voru vírar sem gáfu frá tónlistina. Vegna þessarar uppgötvunar urðu mýsnar að endurskoða trú sína á ósýnilegan spilara og einungis eldri mýs trúðu á hann áfram.

Mörgum árum síðar laumaðist ung og huguð mús enn þá ofar í píanóið þar sem hún uppgötvaði að leyndarmálið voru ekki vírarnir heldur litlir hamrar sem slógu í vírana. Þetta var enn þá flóknari kenning, en leiddi músunum fyrir sjónir að heimurinn þeirra væri vélrænn heimur. Hægt og bítandi fækkaði þeim sem trúðu á ósýnilega spilarann og svo fór að mýsnar litu á hann sem þjóð sögu.

En ósýnilegi spilarinn hélt áfram að spila á píanóið og skapa fallega og huggandi tónlist.

 

Nálgun

…og Guð heldur áfram að elska og annast okkur, því honum er umhugað um okkur.

„Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast.“  5. Mós 31.8

 

Sagan Mýsnar í Píanóinu (e. The Mice in the Piano) er úr bókinni „More Hot Illustrations for Youth Talks“ Copyright © 1995 by Youth Specialties Inc, Grand Rapid, Michigan í þýðingu Jóns Ómars Gunnarssonar