Texti: Jóh. 4:5-42

Nú kemur hann til borgar í Samaríu er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu sem Jakob gaf Jósef syni sínum. Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður og settist þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.

Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: „Gef mér að drekka.“ En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.

Þá segir samverska konan við hann: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“

Og miklu fleiri tóku trú þegar þeir heyrðu hann sjálfan. Þeir sögðu við konuna: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“ (http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=42&chap=4)

Verkefni

Textinn er að þessu sinni mjög myndrænn og gæti því hentað vel til leikrænnar tjáningar. Hægt væri t.d. að velja ákveðinn hóp til að æfa leikrit út frá textanum og flytja á fundinum.

Framhaldssaga

Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Þegar mamma var vond“ bls. 58-64.

Tenging: Líf okkar á að vera vitnisburður um hve Jesús er góður.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Áfram, Kristsmenn, krossmenn
  • Er þú veist um vin, sem þarfnast
  • Ég er heimsins ljós
  • Ég er lífsins brauð
  • Fús ég, Jesús, fylgi þér
  • Guð þú gætir mín æ
  • Hann Sakkeus var oftast einn
  • Hver er í salnum
  • Jesús, Jesús

Hugleiðing

Boðskapur

Jesús vill hafa áhrif á líf okkar, umbreyta því til góðs. Hann vill vera Drottinn lífs okkar, þ.e.a.s. sá sem fær að ráða ferðinni. Hann vill hreinsa líf okkar og gefa okkur nýja von.

Aðkoma

Til greina kemur að ræða í upphafi um það hvað sé mikilvægast eða merkilegast við vatnið sem svo mikið er af hér á jörðinni. Er það hæfileiki þess að breytast í snjókorn eða klaka við ákveðið hitastig? Er það hæfileiki þess að geta gufað upp, hitað híbýli eða kælt bíla? Hvað skyldi gera það svo mikilvægt fyrir okkurog allt líf á jörðinni? Jú, líkami okkar er að stórum hluta vatn og ef við fáum ekkert vott í nokkurn tíma, veslumst við fljótt upp og deyjum. Vatnið er okkur lífsnauðsynlegt. Sennilega vitum við flest næsta lítið um það hvað það er að vera raunverulega þyrstur, en þeir sem hafa upplifað þurrka vita hve þorsti getur verið kveljandi.

Meginmál

Eitt sinn þurfti Jesús að ferðast um Samaríu, sem var milli Júdeu og Galíleu Í Samaríu bjuggu Samverjar, en á tímum Jesú umgengust gyðinar ekki samverja. Það var litið niður á þá og reyndu flestir gyðingar að komast hjá því að fara um Samaríu. Gott er að endursegja biblíusöguna frekar en að lesa hana upp.

Í raun og veru var það samverska konan sem þurfti á hjálp að halda. Hún var ekki ánægð með líf sitt og það vissi Jesús. Hann þekkti aðstæður konunnar á sama hátt og hann þekkir okkur eitt og sérhvert og veit hvers við þörfnumst.. Umhyggja Jesú fyrir konunni og aðstæðum hennar skín í gegn og hún miðast að því að fá konuna til að horfast í augu við þörf sína á nýju og betra lífi. Hún þarfnast fyrirgefningar og nýrrar byrjunar.

Jesús þekkir hinn raunverulega lífsþorsta konunnar og fer því brátt að tala um lifandi vatn. Hann segir að ef hún vissi hver sá væri sem talaði við hana, myndi hún biðja hann um að gefa sér lifandi vatn svo hana þyrfti ekki að þyrsta framar. Hið lifandi vatn væri vatn sem hún þyrfti á að halda til að öðlast eilíft líf.

Fyrst í stað misskilur konan orð Jesú en smám saman áttar hún sig á því að það sem Jesús hefur að gefa henni er annað en venjulegt vatn, en engu að síður jafn lífsnauðsynlegt. Í lok samtalsins kemst hún að því að Jesús er messías, frelsarinn sem Guð hafði lofað að kæmi. Og hún veit að Jesús vill breyta lífi hennar, fyrirgefa henni syndir hennar og gefa henni nýja von. Lífsins vatn er í raun Jesús sjálfur og það líf sem hann gefur af náð sinni. Líf konunnar var breytt. Hún fór og sagði öðrum frá Jesú og fyrir hennar orð komu margir að hlusta á Jesú og eignuðust trú á hann.

Jesús vill einnig fá að breyta ýmsu í okkar lífi. Í Biblíunni segir að hann knýi á hjartadyr okkar og vilji fá að komast inn. Hann ryðst ekki inn í líf okkar heldur knýr hann á dyrnar. Það er okkar að hleypa honum inn.

Hverju skyldi Jesús þurfa að breyta fyrst, þegar við hleypum honum inn? E.t.v. því, að sá sem er vanur að sitja í bílstjórasætinu sé tilbúinn að víkja fyrir Jesú. Gallinn er bara sá, að við viljum oft fá að ráða ferðinni sjálf. Við hugsum venjulega mest um okkur sjálf og viljum ekki að aðrir séu að stjórna okkur. En ef við þorum að leyfa Jesú að setjast í „húsbóndastólinn“ þá komumst við líka að því að Jesús er sannur vinur sem við getum treyst fyrir lífi okkar. Hans vilji er okkur ætíð fyrir bestu. Hann vill taka þátt í lífi okkar og blessa það ríkulega. Okkar er að þjóna honum og tilbiðja.

Samantekt

Í trúarjátningunni segjum við að Jesús sé okkar Drottinn, þ.e.a.s. við viljum að hann sé leiðtogi okkar lífs, við viljum þjóna honum.

Minnisvers

Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. (Op. Jóh. 3:20)

Bæn

Þökkum Guði fyrir að hann er fús að fyrirgefa okkur eins og við erum. Biðum hann að koma inn í líf okkar og hjálpa okkur að treysta honum fyrir lífi okkar.

Í „Helgileikjabók“ sem gefin var út af þjóðkirkjunni fylgir eftirfarandi bæn frásögunni af samversku konunni.

Ó, Drottinn, Guð,
við lofum þig fyrir son þinn,
sem gjörir allt nýtt og hreinsar
hjörtu okkar og samvisku.
Amen.