Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ,,Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.” Mk. 12, 41-44

Í Biblíunni gefst okkur tækifæri til að heyra um Guðs ríki, veröld þar sem réttlætið ríkir og kærleikurinn ræður ferðinni. Þar eru allir jafnir og enginn tekur sínar þarfir fram yfir annarra og því fá allir þörfum sínum fullnægt. En við heyrum líka að ríki Guðs sé enn ekki komið fram að fullu og því sé veröldin ekki alltaf í samræmi við vilja Guðs.

Í Faðir vor-inu biðjum við Guð um að ríki Guðs ríki. Við biðjum um heim þar sem við þurfum ekki að berjast fyrir því að verða ekki undir heldur megum lifa í öryggi og fullvissu þess að þörfum okkar sé mætt að fullu.

Slíkt ríki hér á jörðinni í dag, er háð því að við sem trúum og treystum Jesú, leitumst við að skapa slíkt ríki, hendur okkar eru hendur Guðs á jörðu og með því að biðja Guð um að ríki hans verði, erum við jafnframt að lofa því að leggja okkar af mörkum til að ríki Guðs ríki.

Þegar við biðjum Guð um að ríki hans komi erum við að taka áhættu. Við þurfum að vera tilbúin til að hjálpa Guði, leggja okkar af mörkum, svo bænin megi rætast.

Á Íslandi býr ein af tuttugu ríkustu þjóðum í heimi ef litið er til peninga og eigna. Erum við til í að gefa af gnægtum okkar svo vilji Guðs nái fram að ganga?