Jonni fæddist mikið hreyfihamlaður og heilastarfsemin var mjög skert. Þegar hann var tólf ára var hann enn í 2. bekk. Það leit út eins og það væri ómögulegt fyrir hann að læra. Í tímum missti hann stundum stjórn á hreyfingum sínum, hann réri sér, brölti um og öskraði.

Kennarinn var oft þreyttur á honum, þegar hann truflaði kennsluna. Aðrar stundir var hann þó skemmtilegur og talaði skýrt. En oftar var hann þó þreytandi og kennsluaðstæður því erfiðar. Þess vegna hringdi kennarinn heim til foreldra hans dag einn. Hann vildi fá þau til að taka Jonna úr skólanum og senda hann í sérskóla.

Þetta var mikið áfall fyrir foreldra Jonna, það voru engir sérskólar í nágrenninu og þeim fannst hart að þurfa að taka Jonna úr bekknum sem honum leið svo vel í og senda hann langt í burtu. Þess vegna fengu þau leyfi hjá kennaranum til að hafa Jonna áfram í bekknum.

Eftir á skildi kennarinn vel afstöðu foreldra Jonna. Hann hafði samúð með þeim. Jonni þjáðist af alvarlegum sjúkdómi. Þjáningin og erfiðið sem foreldrarnir þurftu að þola var mikil í samanburði við það sem gerðist í bekknum. Frá þeim degi reyndi kennarinn að horfa framhjá öskrum Jonna og ósjálfráðum hreyfingum hans.

Páskarnir nálguðust. Kennarinn sagði nemendunum frá Jesú og því sem gerðist á páskunum; að Jesús hefði dáið á krossi og risið upp frá dauðum. Hann ætlaði að hjálpa nemendunum að skilja sérstaklega þetta með upprisuna þannig að krakkarnir myndu örugglega muna að Jesús varð lifandi aftur eftir að hann dó.

Þar sem nemendurnir skildu þetta ekki strax, ákvað kennarinn að gefa þeim heimaverkefni. Hver nemandi fékk eitt páskaegg úr plasti. Þau áttu að taka eggið með sér heim og vinna með það þar. „Á morgun,“ sagði kennarinn, „skuluð þið koma með eggið í skólann með einhverju í sem minnir á líf. Skiljið þið?“

„Já,“ hrópuðu öll börnin nema Jonni. Hann hlustaði bara stíft og horfði á kennarann. Kennarinn hugsaði með sér hvort Jonni hefði skilið heimaverkefnið, e.t.v. ætti hann að hringja í foreldra Jonna og skýra verkefnið út fyrir þeim, svo þau geti hjálpað honum. En það var svo mikið að gera seinna um daginn að kennarinn gleymdi að hringja.

Næsta dag komu 19 glaðir nemendur í skólann. Eggin 19 voru sett í stóra körfu hjá kennaranum. Áður en eggin voru opnuð var stærðfræðitími.

Síðan kom að kristinfræðinni. Í fyrsta egginu fann kennarinn blóm. „Já,“ sagði kennarinn, „blómið minnir okkur á lífið sem vaknar upp á vorin.“ Ein stelpa rétti upp hönd og sagði að blómin væru frá henni. Næsta egg var með litlum plastfugli. Kennarinn útskýrði fyrir börnunum að fuglinn sýndi okkur hvernig nýtt líf verður til úr eggi sem lítur út fyrir að vera dautt. Í þriðja egginu var steinn með grænum mosa á. Það var frá Binna. „Pabbi hjálpaði mér“, sagði hann stoltur. „Mosinn sýnir okkur að það er líf á þessum dauða steini“, sagði kennarinn.

Þegar kennarinn opnaði fjórða eggið varð alger þögn. Það var tómt. „Þetta hlýtur að vera eggið hans Jonna,“ hugsaði kennarinn með sér. „Æ, ég vildi að ég hefði ekki gleymt að hringja í foreldra hans í gær. Auðvitað hefur hann ekki skilið heimaverkefnið.“
Þar sem kennarinn vildi ekki særa Jonna, lagði hann eggið varlega til hliðar og teygði sig eftir nýju eggi. Allt í einu sagði Jonni:

„Ætlarðu ekki að tala um eggið mitt, kennari?“

Kennarinn roðn-aði: „E-en Jonni, eggið var tómt.“

Jonni horfði í augu kennarans og sagði rólega: „Já, en gröf Jesú var líka tóm.“

Tíminn stóð í stað. Kennarinn sat lengi hugsi. Þegar hann loksins náði að tala aftur sagði hann: „En Jonni, veistu af hverju gröfin var tóm?“

„Ja-á,“ sagði Jonni ákafur. „Hann var drepinn og látinn í gröf en svo reisti pabbi hans hann upp frá dauðum!“

Þremur mánuðum síðar dó Jonni. Fólkið sem kom í jarðarförina var undrandi að sjá 19 egg sem lágu á kistunni hans. Öll eggin voru tóm.
(Úr biblíulesefni sumarbúða KFUKog KFUK, Ég, um okkur, frá Guði, til allra manna. Samantekt Vigfús Hallgrímsson)

Það er erfitt fyrir okkur sem eru kristinn að skilja að í harla góðri sköpun Guð er til eitthvað illt. Við sem erum kristin megum hins vegar vita og vona á Guðs ríkis þar sem hið góða, fagra og fullkomna ríkir eitt. Það er vonin um hina tómu gröf sem gerir kristna trú að lifandi trú en ekki steinrunnum siðaboðskap.

Við megum hlakka til þess tíma að ekkert illt sé lengur til.