Um samveruna

Hvað er það? Svar: Guð gefur að sönnu daglegt brauð einnig án vorrar bænar jafnvel öllum vondum mönnum, en vér biðjum í þessari bæn, að hann láti oss við það kannast og vort daglega brauð með þakklæti þiggja.

Hvað er þá nefnt daglegt brauð? Svar: Allt sem heyrir til fæðslu líkamans og þarfa, svo sem matur, drykkur, klæði, skæði, hús, heimili, jarðnæði, fénaður, peningar, fjármunir, guðhræddur maki, guðhrædd börn, guðhrædd hjú, guðhræddir og trúir yfirmenn, góð landstjórn, góð veðrátta, friður, heilbrigði, siðsemi, heiður, góðir vinir, trúir nágrannar og þvíumlíkt.

Markmið samverunnar

Í bæninni biðjum við ekki bara um brauð okkur til handa, heldur biðjum við þess að allir menn fái nóg. Í þessari samveru fjöllum við um mismuninn á þörfum og löngunum og hvað við getum gert til að þessi bæn geti ræst.

Biblíutextar

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.

… Jesús … segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera. … Jh 6.1-15

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf. 1Tm 6.17-19

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!

Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Mt 6.19-34

Að nálgast efni dagsins

  • Hópur ungs fólks í KFUM og KFUK hefur undanfarin ár staðið að verkefninu JÓL Í SKÓKASSA. Vel fer á því að nota þennan fund í það verkefni. Þá væri upplýsingum komið á framfæri við börnin á fundinum á undan og þessi fundur síðan nýttur til að safna saman kössunum og e.t.v. setja í þá. Upplýsingar um verkefnið eru t.d. á vefsvæðinu www.skokassar.net.
  • Í tengslum við þennan fund er tilvalið að ræða um kristniboð/hjálparstarf.
  • Hægt er að fá ungmennin til að velta fyrir sér muninum á löngunum og þörfum.
  • Það er hið illa sem leiðir huga okkar og áhyggjur að löngunum okkar og fær okkur til að halda að þær séu þarfir.
  • Skaparinn gefur okkur það sem þarf, sbr. ,,Sjáið liljur vallarins …”
  • Höfum við vilja til að deila með öðrum (brauðundrið). Í Faðir vorinu notum við fleirtölu ,,oss” en ekki ekki eintölu ,,mér”. Þannig biðjum við þess að allir fái þörfum sínum fullnægt.
  • Guð kallar okkur til að hjálpa til við að uppfylla okkar eigin bænir.
  • Hér er einnig tækifæri til að ræða um altarissakramentið hjá eldri hópum.

Hugleiðing

Hér fer best á því að segja frásöguna hér að neðan líkt og guðspjallamaðurinn Jóhannes skrifar hana í Jh 6.1-15. Best fer á því að hún sé lesin beint upp úr Biblíunni en ekki úr boðunarheftinu. Með því móti venjast ungmennin því að heyra biblíutexta.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: ,,Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?” En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. Filippus svaraði honum: ,,Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.” Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: ,,Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?”

Jesús sagði: ,,Látið fólkið setjast niður.” Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: ,,Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.” Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: ,,Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.” Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

 Verkefni

Þarfir okkar

 

Flestir sem ég þekki hafa:

Matur –  __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

Húsnæði – __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

Föt –  __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

 

Í samanburði við aðra í heiminum.

Matur –  __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

Húsnæði – __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

Föt –  __  Meira en nóg  __ Nóg  __ Skortir

 

Lífsuppboðið

Ef við höfum 1.000.000 króna og eigum að nota þá fjárhæð til að kaupa nokkra mikilvæga þætti í lífi okkar, hversu miklu viljum við eyða. Óheimilt er að nota meira en 250.000 krónur í einstaka liði. Við göngum út frá því að þátttakendur eigi ekkert af neðangreindu.

  1. Stefnumót með uppáhaldsleikara/leikkonunni þinni
  2. Nýr jeppi/sportbíll
  3. Miðar á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni þinni og baksviðspassar.
  4. Góð fjölskylda
  5. Heill fataskápur af öllum þeim fötum sem þig langar í.
  6. Lækning við krabbameini
  7. Nýtt heimabíó með flatskjá
  8. Nægur matur fyrir allar manneskjur í heiminum
  9. Góðir og traustir vinir
  10. Frábærar einkunnir og mikil menntun
  11. Ferðalag greitt að fullu, hvert sem er í heiminum.
  12. Engir fleiri glæpir á Íslandi.
  13. Draumahús, staðsett þar sem mig langar til.
  14. Góð vinna
  15. Trú á Guð
  16. Fullkomið útlit
  17. Frábært veður alla tíð
  18. Gott ástarsamband með réttri manneskju
  19. Heimsfriður.

Þegar allir hafa fyllt út tilboðsblöðin, fer leiðtoginn yfir þau og tilkynnir hvað var hæsta boð í hvern lið fyrir sig og hver hafi keypt. Síðan er tækifæri til að ræða um verðmæti hvers liðar fyrir sig og hvers vegna boðin voru eins og þau urðu. Hvað segir uppboðið um forgangsverkefnin okkar.

Framhaldssaga – Við Guð erum vinir

  • Baunir og bænir bls. 18-23

Söngvar

  • Ástarfaðir himinhæða
  • Ég biðja vil og þakka þér
  • Ég er lífsins brauð