Það er búið að vera erfitt eftir „atburðinn sem breytti öllu“. Allir í kringum Najac eru hræddir, óvissan er mikil. Samkenndin og vináttan sem ríkti fyrst, virðist vera að hverfa. Félagar Najac eru orðnir pirraðri en áður og í gær þegar Najac lýsti fyrir þeim tilhlökkun sinni að komast brátt heim til mömmu sinnar, hreytti einn þeirra út úr sér: „Hættu þessu rugli. Mamma þín sendi þig hingað til höfuðborgarinnar að losna við þig. Þú varst byrði á henni og líkt og hún losar sig við ruslið út á hauga, henti hún þér hingað. Henni er alveg sama. Þú ferð aldrei aftur heim. Þú ert bara rusl.“

Najac hugsaði um fólkið í kringum sig. Hann hafði ekki séð litlu frænku sína síðan hann flúði á götuna. Ekki þótti ættingjunum mikið til hans koma. Verksmiðjustjórinn hafði ekki talið hann mikils virði. Kennarinn hafði sýnt honum væntumþykkju, en enginn virtist hafa séð kennarann eftir „atburðinn sem breytti öllu.“ Najac hugsaði um hver myndi eiginlega eftir sér, væri hann e.t.v. gleymdur öllum. Skyldi feiti fótboltamaðurinn frá fyrirheitna landinu muna eftir honum, varla. Tannlæknirinn væri líklega búin að gleyma honum. Ferðalangurinn og hitt starfsfólkið í skólanum, ef það var þá á lífi, hafði um mikilvægari hluti að hugsa en Najac. Það var óþægilegt að hugsa svona, kannski höfðu strákarnir rétt fyrir sér. Najac vissi ekki hvað hann átti að halda. Eftir að hann fór frá ættingjunum og flutti á götuna hafði hann ekkert heyrt frá mömmu sinni. Það voru eftir allt komnir rúmlega 6 mánuðir og svo margt hafði gerst.

Najac vissi að hann mátti ekki glata voninni, en það var bara svo erfitt. Hann varð að halda áfram. Hann varð að komast heim til mömmu.