Ritningartexti: Filippíbréfið 4.4-7

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Markmið

Raunveruleg gleði er smitandi og kallar okkur til að gleðja aðra.

Um textann

Þegar Páll skrifar Filippíbréfið er hann í fangelsi. Hann veit að ef til vill mun handtaka hans nú leiða til aftöku. En samt sem áður er bréfið fullt af gleði. Gleðin felst ekki í aðstæðunum sem hann er í. Gleði Páls byggir á fullvissunni um það að sama hvað gerist, Guð er með.

Bréfið er skrifað til fyrsta kristnu kirkjunnar í Evrópu, kirkjunnar í Fillipí. Það var ekki tekið út með sældinni að boða Krist í nýrri heimsálfu og í bréfi Páls til Þessaloníkumanna rifjar Páll upp að hann hafi „þolað illt og verið misþyrmt í Filippí.“ En erfiðleikarnir báru ávöxt. Gleðin vegna upprisu Jesú og traust til þess Guðs sem hefur gefið allt, hefur svo sannarlega fest rætur í Filippí.

Bréfið inniheldur þakkir fyrir gjafir sem Páll hefur fengið í fangelsinu og annars staðar lesum við um stuðning íbúa Filippí til safnaðarins í Jerúsalem. Gleðin yfir góðum gjöfum Guðs kallar okkur til að gefa áfram, en hugsa ekki bara um okkur sjálf.

Gleðin sem felst í voninni á upprisuna er smitandi gleði. Hún kallar okkur til að gera það sem er gott.

Hugmynd að hugleiðingu

Hérna mætti fá þátttakendur til að velta fyrir sér spurningum eins og: „Hvað veitir þér gleði? Ef við tökum út allt sem veitir gleði og við þurfum að kaupa hvað er þá eftir?“ Að því loknu væri hægt að ræða um hvernig raunveruleg gleði smitar út frá sér.

Najac – Gleði og framtíð

Najac er glaður í dag. Hann fékk skilaboð frá mömmu sinni í gegnum ættingjana sem hann bjó hjá. Mamma hans hafði verið valin til að taka þátt í verkefni sem gæti breytt öllu. Henni hafði verið boðið að taka þátt í námskeiði, þar sem henni yrði kennt að sníða föt og stofna smáfyrirtæki. Hún myndi jafnframt fá lán til að laga þakið á húsinu þeirra og til að kaupa efni til fatagerðar. Samtökin sem stóðu að verkefninu, höfðu meira að segja boðist til að hjálpa henni að koma vörunum á markað í höfuðborginni.

Ættingjarnir voru reyndar ekki jafn spennt og Najac, þeir höfðu miklar efasemdir um að einhver myndi vilja hjálpa mömmu Najac, en Najac var glaður. Mamma hans hafði líka sagt að ef allt gengi vel, gæti hann komið aftur heim eftir 6-9 mánuði, þegar hún væri búin að koma undir sig fótunum.

Najac ákvað að byrja að telja niður dagana. Hann hafði ekki hitt mömmu sína lengi. Hún veiktist illa eftir að hafa drukkið mengað vatn og í kjölfarið varð hún að senda Najac frá sér til ættingja í höfuðborginni. Það voru líklega orðin tvö ár síðan. Allan þann tíma hafði hann ekki séð mömmu sína. Hann hafði ekki heldur heyrt mikið frá henni. Í þorpinu heima var enginn sími, hvorki Najac né mamma hans gátu lesið eða skrifað og það var helst að einhver sem ætti leið á milli þorpsins og höfuðborgarinnar gæti flutt fréttir á milli. En í dag var Najac glaður, bráðum yrði allt gott.

Popptenging

Hlátur í neðanjarðarlest

Vísun á myndband á Youtube. Því miður er ekki boðið upp á að setja það inn í færsluna.

Hláturverkefnið í Berlín miðar að því að gleðja fólk í daglegum verkefnum. Hér er myndband af einstaklingum sem ákveða að gleðja í neðanjarðarlest. Hvað getum við gert til að gleðja þá sem í kringum okkur eru?