Um samveruna

Hvað er það? Svar: Guð freistar að sönnu einskis manns, en vér biðjum í þessari bæn, að Guð vilji vernda oss og varðveita, svo að djöfullinn, heimurinn og hold vort svíki oss eigi né tæli til vantrúar, örvæntingar og annarrar stórrar svívirðingar og lasta og vér fáum, þótt vér freistumst af þessu, að lyktum unnið sigur og sigri haldið.

Markmið samverunnar

Guð vill vernda okkur og varðveita og ganga með okkur í gegnum lífið, jafnt í gleði og sorg. Markmið samverunnar er að hjálpa börnunum að skilja hvernig Guð er með okkur í erfiðleikum jafnt sem gleði.

Biblíutextar

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi. Sálm 23

 

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“

Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er:

Hann mun fela þig englum sínum  og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“

Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra 9og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. Mt 4.1-11

 

Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Hebr 13.5

Að nálgast efni dagsins

  • Við erum ekki laus undan freistingum sbr. 1M 3.1 og 1Pt 5.8.
  • Guð er nógu stór til að taka við vanlíðan okkar og óánægju. Ef okkur líður illa megum við segja hvað sem er við Guð. Hann hlustar og fyrirgefur (sbr. Jeremía spámann).
  • Það má leyfa ungmennunum að vinna með hugtök sem tengjast vanlíðan. Þannig er hægt að fá þau til að móta í leir hvernig nokkur hugtök líta út, s.s. ótti, hræðsla, leiði, áhyggjur og von.
  • Í Sagnaskríninu, sögu 59 er fjallað um það á myndrænan hátt hvernig við festumst í fjötrum hins illa ef við biðjum ekki reglulega Guð um að fyrirgefa okkur misgjörðir okkar. Hægt er að útfæra þetta á fundinum með því að fá sjálfboðaliða úr hópi þátttakenda og vefja um hann tvinna/salernispappír/garni eða því sem hendi er næst.

Hugleiðing – Sporin í sandinum

Mann nokkurn dreymdi draum. Hann dreymdi að lífi hans væri lokið og hann sá það fyrir sér sem gönguferð með Jesú eftir sendinni strönd. Þegar hann virti líf sitt fyrir sér sá hann fótspor tveggja manna – Jesú og sín eigin. Hann tók þó eftir því að á köflum voru aðeins ein spor í sandinum. Þetta voru einmitt þau tímabil í lífi hans þegar hann átti hvað erfiðast.

Þetta olli manninum nokkru hugarangri og hann sagði við Drottin: „Drottinn, þú sagðir að þú myndir aldrei yfirgefa mig. Þú sagðir þegar ég ákvað að fylgja þér að þú myndir ganga með mér alla leið. En nú hef ég séð að þar sem ég átti hvað erfiðast í lífi mínu voru aðeins ein spor í sandinum. Hvernig gastu skilið mig eftir einan þegar ég þarfnaðist þín mest?“

Jesús svaraði: „Kæri sonur, þú mátt vita að ég elska þig og ég myndi aldrei yfirgefa þig. Skoðaðu þessi fótspor aðeins betur. Á meðan þessir erfiðu tímar lífs þíns liðu – þar sem þú sérð aðeins ein spor – var það ég sem bar þig.“

Við getum verið viss um að þegar við upplifum erfiðleika lífsins er Guð með okkur. Þótt við sjáum Hann ekki eða finnum ekki fyrir Honum á slíkum stundum skulum við ekki efast um nærveru Hans. Hann stendur við orð sín í Hebreabréfinu 13.5, „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“

Framhaldssaga – Við Guð erum vinir

  • Júlía teiknar, bls. 52-57
  • Þegar mamma var vond, bls. 58-64

Hjálpar-/ítarefni

  • Sagnaskrín – 59. Fjötrarnir (inntak sögunnar má einnig nota sem leik á fundi)
  • Sagnaskrín – 236. Stjórnaðu skapi þínu
  • Sagnaskrín – 264. Versti óvinur okkar
  • Sagnaskrín – 269. Það er nóg

Söngvar

  • Athvarf mitt þú ert, ó, Jesús
  • Í bljúgri bæn
  • Frelsarinn góði