Ritningartextar: 1. Jóh 4.19 og Rm 8.38-39

Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. (1. Jóh 4.19)

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. (Rm 8.38-39)

Um textana

Þegar við ræðum við börnin um Guð, um mikilvægi þess að gera rétt og hegða sér eins og Guð vill, þá megum við samt aldrei gleyma því að elska Guðs er forsenda og upphaf trúar okkar. Guð elskaði oss að fyrra bragði. Guð elskar okkur sama hver við erum, sama hvað við gerum. Við erum öll óendanlega dýrmæt sköpun Guðs. Hegðun okkar og atferli, viljinn til að gera Guðs vilja byggir á elsku Guðs.

Þegar kristið fólk talar um frelsi, þá verðum við að skilja það í þessu ljósi. Frelsið snýst ekki um að gera hvað sem er. Ekki einu sinni um að gera hvað sem er svo lengi sem það skaði ekki aðra. Frelsið felst í fullvissunni um það að sama hvað gerist, sama hvað okkur verður á, þá erum við elskuð af Guði. Eins og segir í Rómverjabréfinu: „Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

Frelsi Kristins manns felst í að lifa í trausti til þessarar skilyrðislausu elsku Guðs. Á guðfræðimáli er talað um „náð“. Elsku Guðs sem er skilyrðislaus, okkur gefin án kröfu um eitt eða neitt.

Að gera rétt er þannig ekki tilraun til að vinna sér inn elsku Guðs, heldur þakklætisviðbrögð fyrir að við megum kallast Guðsbörn. Raunverulegt frelsi samkvæmt kristinni hefð er því frelsið til að vera elskaður af Guði og frelsi til að bregðast við elsku Guðs af þakklæti.

Popptenging

Grace (U2)

http://www.youtube.com/watch?v=7TvHrzQJ0NE

Þetta lag gæti hentað sérstaklega vel fyrir eldri unglinga, en Bono lýkir náðinni (Grace) við stúlku, sem auðsýnir náð og finnur fegurð í öllu sköpunarverkinu.

Grace (Michael W. Smith)

Guð finnur okkur og er til í að vera með okkur í öllum aðstæðum lífsins. Lag Michael W. Smith er einstaklega fallegur óður til náðarinnar.

Verkefni – Hvernig sýnum við þakklæti?

Verkefnið felst í því að fá börnin/unglingana til að telja upp alla þá sem hafa gert eitthvað fallegt/jákvætt/gott fyrir þau síðustu vikuna/mánuðinn. Þegar það er kominn upp listi yfir þá sem hafa gert okkur gott, þá gefst tækifæri til að ræða um hvernig við getum þakkað fyrir okkur.