Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Minnisvers
Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver örum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður. (Efesus. 4:32)
Aðalatriði
Guð er alltaf fús að fyrirgefa okkur. Við eigum einnig að vera fús að fyrirgefa öðrum.
Hvernig byrja ég?
Það getur verið mis erfitt að fyrirgefa öðrum. Takið dæmi um hvað er erfitt og hvað er auðvelt þegar kemur að því að fyrirgefa.
Hugleiðing – Skuldugi þjónninn Matt. 18:23- 35.
Eflaust hafið þið öll einhvern tímann lent í því að einhver kom illa fram við ykkur, sagði eitthvað sem særði ykkur eða braut á ykkur á einhvern hátt. Við vitum öll hvað það getur verið erfitt að fyrirgefa öðrum, sérstaklega þeim sem eru alltaf að gera eitthvað rangt gagnvart okkur. Einn af lærisveinum Jesú, hann Pétur, þekkti þetta. Hann vissi hvað það gat verið erfitt að fyrirgefa öðrum. Þess vegna kom hann eitt sinn til Jesú og spurði: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ – Hverju svaraði Jesús?
Jesús segir: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ – Hvað eru 70×7? – Átti hann þá að fyrirgefa 490 sinnum? Nei, Jesús vildi kenna Pétri að hann ætti að vera fús að fyrirgefa, eins og Guð væri fús að fyrirgefa honum. Og til þess að útskýra fyrir Pétri hvað hann ætti við, sagði hann honum söguna um skulduga þjóninn.
Endursegið söguna með því að nota myndasögu. Smelltu hér til að sækja glærur/myndir á pdf-formi.
Mynd 1 – Einu sinni var kóngur sem kallaði alla þjóna sína til sín því hann vildi að þeir gerðu upp skuldir sínar. Það var komið með hvern þjóninn á fætur öðrum. Þeir skulduðu mismikið, en allir eitthvað. Einn þeirra skuldaði þó mest. Hann skuldaði hvorki meira né minna en 10.000 talentur, en 1 talenta samsvaraði launum verkamanns í 20 ár! Hér var því um óhemju háa upphæð að ræða sem engin von var til að þjónninn gæti nokkurn tíma greitt. Konungurinn skipaði því svo fyrir að selja skyldi allar eigur þjónsins, hann sjálfan og fjölskyldu hans upp í skuldina.
Mynd 2 – Þjónninn varð skelfingu lostinn, féll á kné og grátbað um frest til að borga skuldina. Konungurinn vorkenndi þjóninum og gaf honum upp alla skuldina.
Mynd 3 – Þegar þjónninn kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum 100 denara (100 daglaun verkamanns). Hann fór rakleitt til hans og krafði hann um greiðslu skuldarinnar. Maðurinn bað hann um lengri frest. En þjónninn tók slíkt ekki í mál og fyrirskipaði að varpa manninum í fangelsi. Þar átti maðurinn að dúsa þar til öll skuldin væri að fullu greidd.
Mynd 4 – Nokkrir þjónar konungsins sáu hvað gerðist og sögðu honum tíðindin. Konungur lét þá kalla þjóninn aftur til sín. Í þetta sinn var enga miskunn að fá. Konungurinn mælti: „Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér“ (v.32-33) og hann lét færa hann burtu í fjötrum.
Samantekt
Þessi saga kennir okkur að Guð er fús að fyrirgefa okkur, jafnvel þótt skuld okkar sé óborganleg af okkar hálfu. En fyrirgefning Guðs á einnig að hafa áhrif á viðhorf okkar til annarra (sbr. bænina í Faðir vorinu: Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum). Fyrirgefning er ekki það að segja „fyrirgefðu“ og urra svo í laumi! Sönn fyrirgefning þýðir í rauninni að maður gleymir því sem gerðist og er ekki að hefna sín. En fyrirgefning þýðir samt ekki að við látum allt yfir okkur ganga og við höfum lög í landinu sem eiga að tryggja öllum ákveðið réttlæti og vernd gegn því að brotið sé gegn okkur með alvarlegum hætti. Enginn á að þurfa að þola ofbeldi eða kúgun. Guð vill að við fyrirgefum öðrum og við þurfum líka að læra að fyrirgefa okkur sjálfum þegar okkur verður á. Það getur stundum verið erfitt að fyrirgefa en við skulum muna að við getum alltaf beðið Guð um að hjálpa okkur við að fyrirgefa.
Aukaefni
Sagan Fíll í bílskúrnum úr bókinni Við Guð erum vinir