Matt 18.12-14

Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess sem villtur er? Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu sem villtust ekki frá. Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður að nokkur þessara smælingja glatist.

Hugleiðing

Þegar Jesús gekk um og sagði frá Guði voru margir sem störfuðu við það að gæta kinda. Þess vegna notar Jesús líkingu um sauði. Því hann vildi að fólkið skyldi það sem hann sagði. Fjárhirðar á tímum Jesú gengu á undan hjörðinni og sauðirnir eltu hirðinn. Þannig passaði fjárhirðirinn upp á að þau gengu ekki inn á hættusvæði og var tilbúinn til að verja hjörðina ef gengið var fram á villidýr. Það er töluvert öðruvísi en smalar á Íslandi, sem reka hjörðina áfram. Þegar Jesús talar um fjárhirða, þá lýsir hann þeim sem gengur á undan, jafnvel inn á hættusvæði og hjörðin treystir og fylgir. Fjárhirðir er ekki smali sem neyðir kindurnar á undan sér.

Sagan um týnda sauðinn sem villist frá hjörðinni er líkingasaga sem á að kenna okkur að Guð ber umhyggju fyrir okkur og hvert og eitt okkar skipti máli. Guð gleymir aldrei einu einasta af börnum sínum og vill að við séum alltaf Guðs börn. Guð skilur okkur aldrei eftir ein.

En sögunni er líka ætlað að kenna okkur að skilja aldrei einhvern eftir, heldur að passa vel hvort upp á annað. Því við erum hendur Guðs hér á jörðu og Guð notar okkur til að gera Guðs góða vilja.

Bæn

Góði Guð, þakka þér fyrir að þú elskar okkur eitt og hvert. Hjálpaðu okkur að villast ekki frá þér, heldur fylgja þér alltaf. Kæri Guð, hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum. AMEN.

Leikur: Jarm!

(Leikur 57 úr Theme Games 2 eftir Lesley Pinchbeck).

Hópurinn (kindurnar) sest niður og allir snúa í sömu átt. Sá sem „er hann“ (fjárhirðirinn) kemur fremst og snýr baki í kindurnar. Leiðtoginn gengur síðan á milli kindanna og klappar einhverri á höfuðið, að því loknu gengur leiðtoginn úr hópnum og þá á kindin að jarma. Um leið og fjárhirðirinn heyrir hljóðið má hann snúa sér við og reyna að giska á hver jarmaði (hann má aðeins giska einu sinni). Ef giskað er rétt skiptast þeir á hlutverkum. Ef það reynist erfitt að finna þann sem jarmaði má hafa tvær eða þrjár kindur sem jarma í einu og þá aukast líkurnar á að giskað sé rétt.

Skipt er um fjárhirði eftir þrjár umferðir.