Matt 21.1-11

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“

Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:

Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“

Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“

Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“

Hugleiðing

Jesús var af mörgum talinn næsti konungur Ísraelsríkis, sá sem kæmi inn í Jerúsalem ríðandi á hvítum hesti og myndi frelsa þjóðina undan Rómarveldi sem hélt þjóðinni í heljargreipum.

Þegar Jesús kom ríðandi inn í Jerúsalem voru mörg mjög spennt, nú myndi allt breytast og allt verða gott. En hvað, Jesús kom ekki á hvítum hesti, hann sat á asna? Mörgu fólki í Jerúsalem fannst það örugglega skrítið að Jesús væri ekki með sverð og skjöld á stórum hesti, en þau fögnuðu honum samt sem áður og hrópuðu „Hósanna syni Davíðs!“ En Davíð hafði verið mikill herkonungur og stjórnað Ísrael í nafni Guðs. Fólkið hélt að þannig yrði Jesús líka. En Jesús kom inn í borgina í auðmýkt sitjandi á asna og var ekki að fara að stjórna með valdi heldur sýna elsku og kærleika.

Sumt af fólkinu sem lagði pálmagreinar fyrir framan asnann varð örugglega fyrir vonbrigðum þegar það uppgötvaði hvernig Jesús var, enda getur verið erfitt að skilja að kærleikur er mikilvægari en völd og styrkur.

Bæn

Guð. Gefðu okkur kærleika og hjálpaðu okkur að muna að kærleikurinn er mikilvægari en allt annað. AMEN