Matt 18.1-5, 20.20-28

Um þetta leyti komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“

Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér. …

Þá kom móðir þeirra Sebedeussona til Jesú með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.

Jesús spyr hana: „Hvað viltu?“

Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til sinnar handar, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“

Jesús svarar: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“

Þeir segja við hann: „Það getum við.“

Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka en ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“

Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við bræðurna tvo.

En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar.

Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

Hugleiðing

Lærisveinar Jesús voru uppteknir af því hver þeirra væri mestur og mikilvægastur. Meira að segja foreldrar lærisveinanna vildu að börnin sín væru mikilvægust og fengu að ráða sem mest.

Jesús snéri þessum hugmyndum á hvolf og sagði að börnin væru mikilvægust og þau sem skiptu mestu máli væru þau sem hjálpuðu og þjónuðu öðrum, en ekki þau sem stjórna og stjórnast í öðrum.

Jesús sýndi þetta í lífi sínu, hann kenndi, hann hjálpaði, hann læknaði og þjónaði öðrum. Jesús var aldrei ríkur af peningum og hafði engin formleg völd til að skipa fyrir. Hann hafði áhrif með því að hjálpa, þjóna og sýna kærleika.

Bæn

Góði Jesús. Takk fyrir að þú elskar okkur. Hjálpaðu okkur að sýna öðrum ást og umhyggju, kenndu okkur að þjóna öðrum. AMEN

Verkefni

Hægt er að klippa myndir og útbúa tvö veggspjöld með myndum úr blöðum og tímaritum. Annars vegar veggspjald með myndum af þeim sem samfélag telur mesta og mikilvægasta og hins vegar veggspjald með myndum af stöðu fólks í ríki Guðs, þar sem þau sem þjást, fórna sér og þjóna öðrum eru í forsæti. Mikilvægt er að minna þátttakendur á að öll hafa sama virði í ríki Guðs.