2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð:

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.

Þú skalt ekki morð fremja.

Þú skalt ekki drýgja hór.

Þú skalt ekki stela.

Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Hugleiðing

Ísraelsmenn höfðu verið þrælar í margar aldir í Egyptalandi, en nú höfðu þau losnað undan þrældóminum og komist burt. Það var samt ekki alltaf auðvelt og stundum hugsaði fólkið að það hefði verið auðveldara í gamla daga. Guð vildi hjálpa Ísraelsmönnum að lifa góðu og öruggu lífi og gaf þeim sáttmála og boðorð til að staðfesta samninginn. Fyrstu boðorðin fjalla um samskipti fólks og Guðs og síðari hlutinn fjalla um samskipti okkar við annað fólk. Þessi boðorð móta enn í dag samskipti fólks um allan heim. Þegar Jesús var einu sinni spurður hvað væri mikilvægasta boðorðið tók hann þau saman í eitt og svaraði: „Elska skalt þú Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Bæn

Guð, hjálpaðu okkur að treysta og trúa á þig. Kenndu okkur að elska náunga okkar eins og okkur sjálf. AMEN.