Lúk 19.1-10

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“

En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“

Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Hugleiðing

Fólkið í Jeríkó var spennt yfir að Jesús væri að koma. Sakkeus hafði líka heyrt af þessum manni og var mjög spenntur. Hins vegar var Sakkeus mjög óvinsæll, fólki fannst hann hafa komið illa fram við aðra, vissi að hann hafði stundum tekið meiri peninga af fólki en hann átti að gera.

Þannig að þegar Sakkeus reyndi að sjá Jesús, þá leyfði enginn honum að standa fyrir framan sig, hann komst hvergi að. Sakkeus ákvað því að klifra upp í tré í von um að sjá. Hann hélt líklega og vonaði að enginn myndi taka eftir honum, enda fremur asnalegt að virðulegur maður prílaði í trjám.

Það sem gerðist var hins vegar skrítið, skelfilegt og frábært í senn. Jesús sjálfur sá Sakkeus og talaði við hann upp í trénu. Allt í einu voru allir að horfa á hann, þar sem hann sat upp á grein, virðulegur kall, í mjög óvirðulegum aðstæðum.

Síðan var það frábæra, Jesús sagðist ætla að koma heim til Sakkeusar og eyða tíma með honum. Jesús gaf sér tíma til að vera vinur hans, þrátt fyrir hver hann var og hvað hann hafði gert.

Sakkeus var mjög þakklátur og ákvað að breyta um stefnu í lífinu. Fyrst Jesús hefur tíma og kemur vel fram við mig, hugsaði Sakkeus,  þá vil ég vera eins og Jesús, hjálpa öðrum og gefa mér tíma fyrir þá sem þurfa vináttu.

Að mæta Jesú og finna fyrir elsku Guðs hefur áhrif á líf okkar og það sem meira er. Jesús mætir öllum, ekki bara þeim sem eru góðir og gera allt rétt. Jesús hefur líka tíma fyrir þá sem hafa gert mistök.

Spurning

Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningunni: Hver ert þú í sögunni og af hverju?

Bæn

Kæri Jesús.

Hjálpaðu okkur að sjá þig í þeim sem við mætum. Vertu með okkur og kenndu okkur að koma vel fram við aðra, sína öllum vináttu og ást. AMEN.