Mark 2.1-12

… Þegar fréttist að [Jesús] væri heima söfnuðust þar svo margir að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og Jesús flutti þeim orðið. Þá er komið með lama mann og báru fjórir. Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna sem hinn lami lá í. Þá er Jesús sér trú þeirra segir hann við lama manninn: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu með sjálfum sér: „Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“

Samstundis skynjaði Jesús að þeir hugsuðu þannig með sér og hann sagði við þá: „Hví hugsið þið slíkt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða segja: Statt upp, tak rekkju þína og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu, þá segi ég ykkur,“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“

Maðurinn stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: „Aldrei áður höfum við þvílíkt séð.“

Hugleiðing

Jesús var gífurlega vinsæll, fólk safnaðist alstaðar saman þar sem Jesús kom. Fólk hafði heyrt að hann kenndi um kærleika og einhverjir höfðu jafnvel heyrt að hann læknaði fólk. Vinir lama mannsins heyrðu að Jesús væri í bænum og hugsuðu að e.t.v. gæti hann komið til hjálpar.

Vinirnir urðu örugglega leiðir þegar þeir sáu mannfjöldann, enda erfitt að koma sjúkrabörunum inn í húsið. Einn þeirra fékk samt hugmynd. að fara upp á þak, gera gat á þakið og láta lama manninn síga niður í sjúkrabörunum. Líklega fannst þeim ekki öllum þótt hugmyndin góð. Það var ýmislegt sem gæti farið illa. En þeim tókst ætlunarverkið. Jesús kraup niður að lama manninum sem hafði komið niður úr þakinu og sagði… Syndir þínar eru fyrirgefnar.

Hvað, ha, hvað sagði Jesús eiginlega? Vinirnir voru örugglega undrandi og sumir trúarleiðtogarnir reiðir. Hvernig vogaði Jesú sér að segja að syndir, allt það ranga sem maðurinn hafði gert og sagt væri fyrirgefið? Fyrir það fyrsta, þá kom lama maðurinn til að læknast, en ekki fá fyrirgefningu og í öðru lagi þá var bara á valdi Guðs að fyrirgefa fólki sisona. En Jesús lét ekki þar við sitja. Hann bætti við: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“

Jesús sýndi að hann hafði vald sem flestir töldu að gæti bara komið frá Guði. Hann sýndi með orðum sínum og gjörðum að hann var sonur Guðs.

Bæn

Jesús, hjálpaðu okkur að treysta þér og kenndu okkur að fyrirgefa, eins og þú fyrirgefur. AMEN.

Spurning

Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningunni: Hver ert þú í sögunni og af hverju?