Markmið

Að börnin átti sig á því að Guð elskar þau og þráir ekkert heitar en að fá að vera með þeim og deila með þeim gleði og sorg. Og þó að við misstígum okkur eða segjumst ekkert vilja með Guð í okkar lífi þá bíður hann með opinn arminn, tilbúinn að taka á móti okkur aftur hvenær sem er.

Biblíuvers

Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur. (Jak. 4:8a)

Tveir synir

– Lúk. 15:11-32

Jesús sagði eitt sinn dæmisögu af ungum manni sem nennti ekki að vera heima á bóndabænum með föður sínum og eldri bróður. Þó að þessi ungi maður hefði ekki skoðað ferðabæklinga eða séð auglýsingar í sjónvarpi, þá langaði hann að komast burt úr gráum hversdagsleikanum og skoða fjarlæg lönd. Hann þráði ævintýri. Rétt eins og nú, var slíkt ferðalag dýrt svo að hann bað föður sinn um að greiða sér arfinn fyrirfram, þ.e. þann hluta af eignum sem sonurinn myndi fá eftir að faðir hans væri dáinn. Faðir hans lét það eftir syninum og þar með var hann horfinn að heiman. Oft stóð faðirinn og horfði út á veginn sem sonurinn hvarf eftir og vonaði að hann lifði þann dag að sjá hann koma til baka.

Eldri bróðirinn var jarðbundnari. Hann vann áfram á búinu og reyndi að vera föður sínum góður sonur. Trúlega hefur hugurinn stundum hvarflað til litla bróður sem hlaut að lifa í vellystingum á öllum peningunum sem hann tók með sér að heiman. Kannski öfundaði hann bróður sinn og kannski fylltist hann stolti yfir því að hann vann fyrir föður sinn af trúmennsku, var stoð hans og stytta.

En víkur nú sögunni aftur að yngri syninum sem hélt af stað eftir rykugum veginum og brosti af ánægju. Nú skyldi hann sko gera allt það sem hann langaði til. Enginn sagði honum fyrir verkum. Hann fór í burtu í fjarlægt land. Hann kynntist fullt af fólki, hélt partý og veislur á hverju kvöldi. Allir vildu vera vinir hans. Ekkert gat stöðvað hann og hann skemmti sér konunglega. En dag einn þegar hann ætlaði að borga var vasinn galtómur. Sömu sögu var að segja um alla hina vasana. Sonurinn hafði eytt öllum arfinum sem hann hafði fengið. Ekki króna eftir. Þessir svokölluðu vinir hans voru ekki lengi að láta sig hverfa þegar þeir áttuðu sig á að peningurinn væri búinn. Á augnabliki hafði sonurinn farið frá því að vera vinsælasti maðurinn á svæðinu yfir í að vera allslaus. Hann þurfti því að fá sér vinnu en enginn vildi ráða hann. En hann fékk að gæta svína hjá bónda einum. Hann var orðinn svo svangur að hann langaði mest til að borða mat svínanna. Þá var honum hugsað til vinnumanna föður síns. Þeir fengju alltaf nóg að borða. Hann hugsaði með sér að hann skyldi fara heim og segja við föður sinn: „Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.“ Síðan hélt hann af stað heim á leið. Þegar hann var farinn að nálgast heimilið sá hann hvar maður kom hlaupandi. Þetta var faðir hans sem kom hlaupandi á móti honum og faðmaði hann. Sonurinn sagði þá við föður sinn: „Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.“ En viðbrögð föðurins voru að senda þjónana eftir bestu skikkjunni sem til var og klæða hann í, setja hring á hönd hans og klæða hann í skó. Hann vildi einnig láta slátra alikálfinum og slá upp veislu.

Sama dag var eldri sonurinn að koma heim af akrinum þegar hann heyrir að í húsinu er dansað og leikið á hljóðfæri. Hann verður mjög undrandi og kallar til eins vinnumannsins: „Hvað er eiginlega um að vera?“ Og fær svarið: „Bróðir þinn er kominn heim og faðir þinn varð svo glaður að hann lét slátra alikálfinum og sló upp veislu.“ Þessi frétt vakti upp mikla reiði í brjósti eldri bróðurins og hann vildi ekki fara inn og taka þátt í fögnuðinum. Hvað var faðir hans eiginlega að hugsa? Fyrst fer sonur hans að heiman, særir hann og í þokkabót sólundar hann arfinum í skemmtanir og óþarfa munað. Svo er honum fagnað eins og prinsi! Faðirinn kom út til að fá eldri son sinn með í fögnuðinn. En hann sagði: „Hvernig stendur á því að ég sem hef þjónað þér í mörg ár og verið þér hlýðinn sonur, hef ekki fengið svo mikið sem lítið lamb til að halda veislu með vinum mínum. En þegar hann kemur heim, þessi sonur sem hefur eytt eignum þínum í svall og vitleysu, þá slátrar þú alikálfi?“ – Það er auðvelt að skilja reiði unga mannsins, hinn sonurinn átti miklu fremur skilið að fá refsingu. – Faðirinn sagði hins vegar við soninn: „Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú verð ég að halda hátíð og fagna því hann bróðir þinn sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur en er fundinn.“

Samantekt og umræður

Föðurnum þótti ákaflega vænt um báða syni sína. Ekkert var honum mikilvægara en að vera með þeim og deila með þeim gleði og sorg. Báðir synirnir brugðust föðurnum einmitt í því. Annar fór burt í fjarlægt land, en fyrir hinum varð samveran við föðurinn svo sjálfsögð að hún hætti að skipta máli. Sonurinn varð upptekinn af því að vera betri en bróðirinn. Þess vegna gat hann ómögulega samglaðst föður sínum því hann sóttist svo eftir því að fá sjálfur hól og viðurkenningu.

Nærvera Guðs getur líka orðið svo sjálfsögð fyrir okkur að við hættum að taka eftir henni og gleymum að hún skiptir máli. Guð er ekki nálægur okkur af því að við erum sérstaklega góð og áreiðanleg. Nálægð Guðs er ekki verðlaun. Guð hefur skapað okkur, honum þykir vænt um okkur og hann vill að við lifum í hendi hans. Eins og bræðurnir í sögunni höfum við kannski villst burtu frá Guði. Og Guð bíður eftir að við komum til hans. Hann bíður, eins og faðirinn í sögunni sem horfði eftir veginum og vonaði að annar sonurinn sneri heim og þurfti að minna hinn soninn sinn á það sem hann átti. Ég veit ekki hvorum syninum ykkur finnst þið líkjast, en öll höfum við syndgað og þörfnumst fyrirgefningar Guðs. Biðjum Guð að það skipti okkur jafn miklu máli að vera nálægt honum eins og það skiptir hann miklu máli að vera nálægt okkur.

Bæn

Vertu Guð faðir