Markmið

Að börnin læri að það er mikilvægt að hlusta á það sem Jesús vill segja við okkur. Þegar við tökum okkur tíma til að hlusta á það sem Jesús vill kenna okkur, getum við lært að fara eftir boðskap hans og gera það sem rétt er.

Biblíuvers

Meistarinn er hér og vill finna þig. (Jóh. 11:28)

Að hlusta á Guð

– Lúk. 10:38-42

Á ferðum sínum kom Jesús oft í heimsókn til vina sinna sem áttu heima í Betaníu, litlu þorpi skammt frá Jerúsalem. Þetta voru þrjú systkini, tvær systur sem hétu Marta og María og bróðir þeirra sem hét Lasarus. Öll báru þau mikinn kærleika til Jesú og glöddust alltaf þegar hann kom í heimsókn. Í þá daga voru ekki til símar, svo heimsóknir Jesú og lærisveina hans komu þeim systkinum venjulega mjög á óvart.

Þegar Marta sá Jesú koma í heimsókn, var hún vön að flýta sér að taka til í húsinu, elda góðan mat og baka kökur og þess háttar. Hún vildi að Jesús fengi að njóta alls þess besta sem hún hafði að bjóða.

En Biblían gefur til kynna að María systir hennar, hafi hins vegar látið húsverkin lönd og leið en fylgt Jesú eftir og hlustað vel á allt sem hann sagði. Dag einn, þegar Marta var önnum kafin við að framreiða góðan kvöldverð fyrir Jesú, reiddist hún systur sinni fyrir að láta sig eina um alla vinnuna.

„María ætti að vera hér og hjálpa mér“, hugsaði hún með sér. Síðan fór hún til Jesú og sagði: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“

En Jesús svaraði og sagði við hana: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María hefur valið góða hlutann, hann skal ekki verða tekinn frá henni“.

Mörtu fannst það nauðsynlegt að gera allt sem hún gæti til þess að Jesú liði sem allra best og hún lagði mikið á sig til þess að svo mætti vera. En Jesús fannst mikilvægara að hafa athygli Mörtu óskipta.

Samantekt og umræður

Hafið þið einhvern tíma farið í heimsókn til fólks sem hefur boðið ykkur að setjast inn í stofu en horfið sjálft inn í eldhús til að baka vöfflur eða búa til einhverjar góðar veitingar? Það verður til þess að ykkur gefst gott tækifæri til að tala við foreldra ykkar eða hvern þann sem kom með ykkur í þessa heimsókn. En þið hefðuð eins vel getað verið kyrr heima og tala þar við foreldra ykkar. Stundum væri jafnvel betra að fá litlar eða engar veitingar en hafa þess í stað tækifæri til að tala við kunningja okkar um það sem okkur liggur á hjarta.

Okkur finnst oft að við verðum að gera eitthvað fyrir vini okkar þegar þeir koma í heimsókn og það er vissulega fallega gert. En ef til vill hafa þeir einmitt komið til að tala við okkur en við verið of önnum kafin til þess að geta hlustað.

Jesús vildi kenna Mörtu mikilvægi þess að hlusta. Það er mjög þýðingarmikið að við hlustum á það sem vinir okkar hafa að segja. En það er sérstaklega mikilvægt að hlusta á það sem Jesús vill segja við okkur. Við getum heyrt það sem Jesús hefur að segja okkur, með því að lesa í Biblíunni, hlusta á hugleiðingu í KFUM og KFUK og læra minnisversin okkar. Þegar við tökum okkur tíma til að hlusta á það sem Jesús vill kenna okkur, getum við lært að fara eftir boðskap hans og gera það sem rétt er.

Nú styttist í aðventuna en hún hefst sunnudaginn 30. nóvember. Aðventan er undirbúningstími jólanna. Margir gleyma sér í jólastressi og fyllast kvíða á þessum tíma. Finnst þeir þurfa að þrífa allt húsið hátt og lágt og kaupa dýrustu og flottustu gjafirnar handa öllum sem þeir þekkja, baka 17 smákökutegundir og skreyta húsið. En hvorki aðventan né jólin snúast um það. Það má sjá svolitla Mörtu í þessum undirbúningi jólanna. En Jesús vill athygli okkar óskipta. Hann vill að við nýtum tímann til að undirbúa hjörtu okkar og huga fyrir komu frelsarans. Aðventan minnir okkur á að sá sem fæddist í Betlehem kemur enn og mun koma. Hann vill að við séum eins og María, áhyggjulaus og tilbúin að hlusta á Jesú og boðskap hans.

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig