Texti: Jós. 24:1-28

Nú stefndi Jósúa öllum ættbálkum Ísraels saman í Síkem. Hann kvaddi til öldunga Ísraels, höfðingja hans, dómara og embættismenn og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs. Þá ávarpaði Jósúa allt fólkið: … (http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=5&chap=24)

Verkefni

Í hugleiðingunni fjallað um Biblíuna sem orð Guðs sem veitir okkur vitneskju um hinn lifandi Guð. Hægt er að nota tækifærið og kenna þátttakendum að fletta upp ritningarversum eða vinna önnur verkefni sem miða að því að auka þekkingu á Biblíunni og þjálfa okkur í notkun hennar.

Hvað finnurðu mörg nöfn á ritum Biblíunnar í þessum texta?
Þetta verkefni er hugsað fyrir eldri krakka og unglinga. Það krefst ekki nauðsynlega þess að menn hafi Biblíuna við höndina, en verkefnið verður auðveldara ef menn hafa tækifæri til að skoða efnisyfirlit Biblíunnar. Verkefnið miðar að því að finna sem flest nöfn á ritum Biblíunnar sem falin eru í næsta sérkennilegri frásögu. Ekki er gerður greinarmunur á i og í. Hægt er að nálgast blöð með verkefninu hjá æskulýðsfulltrúum KFUM og KFUK.

Framhaldssaga

„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Guð er hjá Júlíu Friðriksdóttur í Hafragili“ (bls. 711).

Tenging: Júlía lærir um Guð í Biblíunni.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • BIBLÍA
  • Blessuð, kæra bókin mín
  • Eigi stjörnum ofar
  • Ég lofa Drottin
  • Fel Drottni vegu þína

Hugleiðing

Boðskapur

Við viljum leggja áherslu á tvennt:

  1. Í fyrsta lagi að Guð skiptir meira máli en allt annað í lífinu og að við þurfum að taka afstöðu til hans.
  2. Í öðru lagi viljum við benda krökkunum á að í Biblíunni fáum við vitneskju um hinn sanna Guð sem Kristur boðar okkur.

Aðkoma

Byrja mætti á því að ræða um þær hugmyndir sem krakkarnir hafa gert sér af Guði. „Ég er næstum viss um að þið hafið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvernig Guð skyldi nú líta út. Hvort hann sé stór eða lítill, ungur eða gamall …“ Spyrja mætti hvort krakkarnir hafi einhvern tíma reynt að teikna Guð. Ætli það sé hægt?

Í kirkjunni hafa menn notað mörg tákn til að tjá Guð. Þríhyrningur og auga eru t.d. mjög algeng tákn. Þríhyrningurinn minnir á Guð sem birtist okkur sem faðir, sonur og heilagur andi (sbr. trúarjátninguna) og augað á að tákna að Guð vakir yfir sköpun sinni.

Þegar við tölum um Guð eða reynum að lýsa honum, getum við í raun aðeins notað líkingar. Í Biblíunni er t.d. talað um Guð sem hirði og föður til að tjá hvað honum er annt um sköpun sína. Stundum er honum lýst sem bjargi vegna þess að við getum treyst honum o.s.frv. Hér má bjóða þátttakendum að koma með hugmyndir að líkingum.

Stundum gerum við okkur myndir af Guði sem eru kannski dálítið barnalegar eða jafnvel rangar. Sumir vilja t.d. helst hafa Guð eins og þeim sjálfum sýnist en það er auðvitað ekki sannur Guð því þá væru guðirnir jafn margir og við mennirnir höfum misjafnar skoðanir.

En hvernig getum við fengið að vita eitthvað um Guð með vissu? Kristnir menn trúa því að það sé fyrst og fremst með því að lesa Guðs orð, Biblíuna og læra af Jesú Kristi.

Meginmál

Þungamiðjan í frásögninni af Jósúa er það val sem Ísraelsþjóðin stendur frammi fyrir (sjá vers 15). Jósúa spyr hvaða Guði þjóðin kjósi að þjóna. Í upphafi væri æskilegt að tengja Jósúa við söguna af Móse. Minna má á að Guð valdi Móse til að leiða þjóðina úr þrældómi í Egyptalandi og inn í fyrirheitna landið. Guð hafði tekið þessa litlu þjóð að sér. Guð hafði útvalið hana og hvað eftir annað fengu Ísraelsmenn að reyna hjálp Guðs. Samt var þjóðin oft fljót að gleyma Guði og tilbað t.d. eitt sinn gullkálf í eyðimörkinni í stað Guðs.

Móse komst aldrei inn í fyrirheitna landið sjálfur svo það kom í hlut Jósúa að leiða þjóðina þangað. Og þegar þjóðin hafði náð að koma sér fyrir í hinu nýja landi, kallaði Jósúa þjóðina saman til þess að tala við hana (texti samverunnar). Fyrst minnti hann Ísraelsmenn á hvernig Guð hafði hjálpað þjóðinni hvað eftir annað, t.d. með útvalningu Abrahams (sjá vers 3), með því að frelsa þjóðina úr ánauð (sjá vers 5) og með því að gefa þjóðinni land (sjá vers 8 og 13). Svo spurði Jósua þjóðina hvort hún vildi þjóna Guði eða fara að tilbiðja falsguði. Ísraelsþjóðin var Guðs útvalda þjóð en samt stóð hún daglega frammi fyrir því vali, hverjum hún vildi þjóna.

Þessu er eins varið með okkur. Guð spyr okkur stöðugt hvort við viljum fylgja sér. Það er ekki nóg að hafa verið skírður sem lítið barn eða hafa þjónað Guði fyrir ári síðan. Guð spyr okkur hverjum við þjónum í dag.

Jósúa var ekki í vafa um hvað væri mikilvægast í lífinu. Þess vegna sagðist hann og hans ættfólk ætla að fylgja Guði (sjá vers 15). Viljum við taka undir svar Ísraelsþjóðarinnar (lesa vers 24)? Ef svo er, hefur það m.a. þær afleiðingar að við viljum hlýða rödd Guðs. Þess vegna þurfum við að læra að hlusta á Guðs orð. Guðs orð á að vera okkur eins og matur sem við þurfum á að halda alla daga vikunnar.

Hægt er að hvetja eldri krakka og unglinga til að lesa reglulega stuttan kafla úr Nýja testamentinu sínu. Síðan mætti ljúka hugleiðingunni með því að kenna minnisversið og leggja áherslu á það, að ef við lærum Guðs orð og geymum það innra með okkur, getur það verið okkur eins og nesti sem við getum alltaf gripið til. Guð vill að við lærum að hlusta á það sem hann vill við okkur segja, svo við lærum að þekkja hann og fylgja honum.

Samantekt

Frásagan af Jósúa á að kenna okkur að trúin á Guð er það sem skiptir mestu máli í lífinu. Í Biblíunni lærum við að þekkja Guð og fylgja honum.

Minnisvers

Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu. (Jós. 24:24)

Bæn

Þakka má fyrir það að Guð er sannur Guð sem vill hjálpa okkur og leiða í lífinu. Þakka fyrir Biblíuna og biðja um hjálp Guðs til að skilja orð Guðs og fara eftir því.

Popptenging

Viðtal við Tony Jones (á ensku)

Þessi popptenging er á ensku og hentar ekki börnum og unglingum undir 16 ára. Hins vegar er hún hér til dýpkunar og umhugsunar fyrir leiðtoga í starfinu. Dr. Tony Jones er einn af lykilmönnum í kirkjuhreyfingu í Bandaríkjunum sem er kölluð „The Emergent Movement“. Hér svarar hann spurningunni um hvort hann sé „frelsaður“ eða „endurfæddur“.