Þá gekk [Jesús] inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: ,,Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.”
Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann. Lk. 19:45-48.

Ef við helgum Guð, þá minnumst við þess hver hann er, virðum hann og vilja hans með því að gera það sem hann ætlar okkur. Við vörumst að gera okkar eigin hugsanir eða fordóma að hugsunum Guðs. Ef við á sama hátt helgum eitthvað Guði, þá er það tileinkað honum og ekki ætlað öðrum að græða á því eða misnota það.

Guð er skapari, frelsari og huggari. Það sem er tileinkað honum á að sama skapi að nota til að vera skapandi, frelsandi og huggandi. Það að biðja þess að nafn Guðs helgist er að biðja þess að Guð og nafn hans sé ekki notað til að særa, meiða eða skemma þá sköpun sem HANN kom til að frelsa.

Það var þess vegna sem Jesús rak sölumennina út úr helgidóminum. Þeir höfðu farið inn í hús Guðs og misnotað það til að græða sjálfir peninga. Þeir seldu við borðin sín vörur sem þeir sögðu að hjálpuðu fólki að þekkja Guð, en voru í raun bara að pretta og svíkja.

Mörgum öldum seinna fóru menn um Evrópu og seldu aflátsbréf, þ.e. bréf sem á stóð að ef það keypti svona bréf þá myndi Guð fyrirgefa þeim. Þessir menn vanhelguðu nafn Guðs með því að segja að fyrirgefning Guðs væri ekki ókeypis heldur þyrfti að borga fyrir hana. Þá kom fram maður sem hét Marteinn Lúther og barðist gegn þessari misnotkun á fyrirgefningu Guðs.
Á öllum tímum er fólk sem vill nota aðstöðu sína til að misnota Guð og orðið hans, til að fordæma, meiða og særa.

Þegar við biðjum þess að nafn Guðs helgist, erum við að heita því að berjast gegn slíkri misnotkun líkt og Jesús í musterinu eða Marteinn Lúther í baráttu sinni við aflátssölumennina.