Hvað er „Jól í skókassa“?

„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.
Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala hefur síðan tvöfaldast því undanfarin ár hafa borist í kringum 5000 gjafir.

Hvert fara skókassarnir?

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu. Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.  Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovskiy sem komið hefur hingað til lands í heimsókn og m.a. kynnt sér starf KFUM og KFUK hér á landi. Hann starfar með KFUM í Úkraínu og er sjálfboðaliðum KFUM og KFUK innan handar þegar þau hafa farið til Úkraínu með gjafirnar.

Hvert á ég að skila skókassanum mínum?

Tekið er á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 m+anudaga til fimmtudaga kl. 9:00 – 17:00 og á föstudögum frá 9:00 – 16:00 fram að síðasta skiladegi. Allar upplýsingar um móttökustaði og síðustu skiladaga er hægt að finna á síðunni undir „Móttökustaðir“ .

Ef hópar ætla að mæta á Holtaveg og afhenda skókassa þá er gott að hringja í síma 588 8899 og láta vita.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á skrifstofu KFUM og KFUK í síma 588 8899, á þessari heimasíðu, með því að senda tölvupóst á jol@skokassar.net og svo er verkefnið einnig með síðu á Fésbókinni.

Hvernig á að ganga frá skókassanum?

 1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
 2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð fyrir strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Hér til hægri á síðunni (útprentanlegt efni) má finna tilbúinn merkimiða. Klippið miðann út, merkið við réttan aldursflokk og límið ofan á skókassann. Einnig er hægt að útbúa sína eigin merkimiða og merkja aldur og kyn á þá.
 3. Setjið 500-1.000 krónur  efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
 4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

Gjafir í skókassana

Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka:

 • Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
 • Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
 • Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassann sinn. Einnig má setja greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
 • Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
 • Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

Hvað má ekki fara í skókassana?

 • Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.
 • Matvara.
 • Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.
 • Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.
 • Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
 • Brothættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.
 • Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.

Athugið!

Ef þú vilt getur þú sett mynd af þér ásamt nafni og heimilisfangi og/eða netfangi efst í skókassann. Það gefur viðtakanda skókassans möguleika á að setja sig í samband við þig. Þannig geta myndast vinatengsl sem varað geta lengi.

Stuðningur við verkefnið

Með þínu framlagi tryggir þú að barn, sem annars fengi ekki jólagjöf, fái gjöf sem færir því gleði, von og hinn raunverulega boðskap jólanna, kærleika Jesú Krists.

Algengar spurningar.

 • Hvar fæ ég merkimiða?

Það má skrifa aldur og kyn á miða og líma á kassana.

 • Má koma með hluti í pakka eða ófullgerðapakka?

Já – stundum vantar hluti í kassana og þá er gott að hafa eitthvað til að fylla uppí með. Ófullgerðakassa geta sjálfboðaliðar klárað ef þarf.

 • Hvert á að skila kössunum?

Á höfuðborgasvæðinu er tekið við kössum á Holtavegi 28 á milli kl. 9-17 fram að síðasta skiladegi.  Aðra móttökustaði er hægt að sjá hér efst á síðunni undir Móttökustaðir. Eins er hægt að finna þar upplýsingar um síðustu skiladaga bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni.

 • Hvenær er byrjað að taka við kössum?

Strax í september er fólk velkomið að koma með kassa á Holtaveg – fyrr jafnvel ef þarf

 • Fyrir hvað hóp koma fæstu kassarnir?

Í fyrra komu fæstu kassar til 11-14 ára

 • Er öruggt að kassarnir komist í réttar hendur?

Já, kössunum er vel fylgt eftir. Farið er yfir alla kassa og þeir settir í gáma. Eimskip flytur gámana. Íslenskir sjálfboðaliðar fara á eigin kostnaði og fylgja kössunum eftir og afhenda börnunum þá.

 • Hvaða leikföng eru góð fyrir drengi á aldrinum 15-18 ára?

Þrautir, tafl, reiknivélar, jójó, litlir boltar, frisbí, seðlaveski, lyklakippur, úr.

 • Hverslags föt er best að setja í kassana?

Við mælum með vetlingum, sokkum, húfum, treflum, nærfötum, peysum og bolum.

 • Má koma með hluti fyrir yngri börn?

Já, það má gera kassa fyrir yngri börn. Fyrir 0-1 árs er áherslan lögð á föt og hreinlætisvörurnar (þvottapoka, sápu, tannbursta og tannkrem og jafnvel snuddur) og svo eitthvert leikfang og smá nammi (sem hentar litlum börnum). Fyrir 1-2 ára er hægt að gera eins og hina kassana. Einnig má koma með hluti og við látum þá fylgja með t.d. heimaprjónaða sokka sem passa fyrir yngri börn og þá er þeim gefið sem þurfa.