Snemma morguns annan janúar lögðum við sendinefndin af stað til Úkraínu með millilendingu í Svíþjóð, vegna ísingar á vél Icelandair í Keflavík og þar af leiðandi seinkun á flugi, rétt náðum við vélinni til Úkraínu vorum síðastar um borð en við komumst með og allt gekk vel. Lentum í Kiev á réttum tíma þar sem Elena tók á móti okkur, hún var sjálfboðaliði í eitt ár hér á Íslandi svo við þekkjum hana vel, gott að sjá kunnuglegt andlit og einhvern sem fylgdi okkur á réttan stað. Við þurftum að koma okkur frá flugvellinum yfir á lestarstöðina og hún sá um að við finndum rétta lest, réttan klefa og talaði við lestarvörðinn að láta okkur vita hvenær við ættum að fara úr lestinni. Þetta var næturlest með pínulítlum klefa með tveimur kojum, notalegt að leggjast aðeins og hvílast meðan lestin ruggaði okkur áleiðis til áfangastaðar okkar.

IMG_6149

Fullur kassi af flottu dóti og boltinn fékk knús í þetta sinn frá lítilli stúlku á munaðarleysingaheimili í Úkraínu.

Við fórum úr lestinni á réttum stað, í bæ sem heitir Znamenka þar tóku á móti okkur Bílstjórinn okkar hann Serge og Vlad sonur Föðursins, Yivgeni (tengiliðurinn okkar í Úkraínu), þar sem Faðirinn var veikur á meðan dvöl okkar stóð, leysti sonurinn hann af og fylgdi okkur á alla staðina sem við fórum á og túlkaði fyrir okkur. Hann og bílstjórinn okkar stóðu sig afskaplega vel.

Þar sem við komum mjög seint á áfangastað, bæinn Subotcy þar sem við gistum, eftir langt ferðalag þá var ekki mikil dagskrá fyrsta daginn. Við fórum í bæinn þar sem lestarstöðin er, Znamenka og hittum yfirmenn félagsþjónustu svæðisins. Þessi bær er heppinn þar sem það er lestarstöð þarna þá hefur stór hópur fólks vinnu tengda lestarkerfinu en að sjálfsögðu er fátækt þarna líka. Í þessum bæ er ekki munaðarleysingjaheimili heldur margar minni einingar þar sem hámark 10 börn búa á hverju heimili með eina móður hjá sér og lifa sem ein fjölskylda, eitthvað sem okkur þótti áhugavert og mun betra fyrir börnin en stór stofnun. Fjölskyldurnar komu á skrifstofur félagsstofnunarinnar og fengu afhentar gjafir. Við höfum ekki áður farið á þennan stað en okkur leist vel á og höfum áhuga á að halda áfram að gefa gjafir til barnanna í þessum fjölskyldum. Að auki fórum við á sjúkrahús í bænum og færðum veikum börnum gjafir.

Daginn eftir fórum við til Kirovograd. Við byrjuðum á að hitta börnin í Mother´s Heart samtökunum í íþróttahúsi í bænum, þetta eru langveik börn flest börn einstæðra mæðra en ekki öll. Sum hver mikið fötluð. Það var mikil hátið allir mjög glaðir að fá okkur í heimsókn og brostu út að eyrum þegar pakkarnir voru komnir í hendur barnanna. Foreldrarnir báðu okkur að skila þakklæti til allra þeirra sem taka þátt í þessu fallega verkefni, þau eru mjög þakklát fyrir að fólk sem það þekkir ekki né hefur nokkurn tíman séð skuli vilja gefa börnunum þeirra gleði með gjöf. Þar sem stríð er í landinu og stöðugur ótti þá er nauðsynlegt að fá að gleyma sér í smá tíma og gjafirnar frá ykkur vöktu mikla lukku.

IMG_3633

Mikil gleði var á Mother´s Heart samkomu þegar íslenski hópurinn útdeildi skókössum fullum af gjöfum til krakkanna.

Eftir hátíðarhöldin í íþróttahúsinu fórum við á munaðarleysingjaheimilið Nadia, heimili sem við höfum ávallt heimsótt, þar eru börn í stuttan tíma þar til fundin eru einhver úrræði fyrir þau. Hvort sem það er annað munaðarleysingjaheimili eða stundum aftur heim til foreldra ef aðstæður hafa skánað. Þar voru þau mjög spennt og mikill kliður þegar þau fengu að opna pakkana, öll vildu þau sýna hvað þau fengu og skoða hvert hjá öðru og að sjálfsögðu voru þau fljót að stinga sælgætismola upp í sig.

Að lokum fórum við á geðsjúkrahúsið og fórum með sælgæti og þvottaefni og fleira eins og gert hefur verið í hvert sinn frá upphafi.

IMG_6018

Starfsfólkið tók vel á móti íslenska hópnum á sjúkrahúsi í Znamenka þegar þau fóru þar að útdeila jól í skókassa.

Síðasta verkefnadaginn okkar fórum við á munaðarleysingjaheimilið í Pantaevka og heimsóttum börnin þar. Við höfum hitt mörg þeirra áður, flest þeirra eru eitthvað veik og þá er því miður ólíklegt að þau verði ættleidd auk þess sem sum þeirra eiga jafnvel foreldra sem hafa einfaldlega ekki efni eða tök á að hafa þau heima hjá sér. Þau voru spennt að fá gjafirnar sínar, allt sem er í skókössunum er jafn spennandi hvort sem það eru fötin, leikföngin, skóladótið, sælgætið eða hreinlætisvörurnar allt er tekið upp og skoðað gaumgæfilega.

Eftir heimsóknina til Pantaevka fórum við til Kirovograd á barnaspítalann þar og hittum nokkur börn sem dvöldu þar, færðum þeim gjafir og sátum hjá þeim og skoðum hvað leyndist í pökkunum þeirra með þeim.

Þá var komið að því að fara heim í prestbústaðinn í Subotcy pakka niður og gera sig klára fyrir heimferð daginn eftir með viðkomu í Kiev.

IMG_6146

Það gleður stóra jafnt sem smáa að fá gjöf. Hérna má sjá eldri hóp taka á móti skókössum á munaðarleysingjaheimilinu Nadia.

Ferðin gekk vel fyrir sig í alla staði, þó var leitt að Faðirinn var veikur, kom í ljós eftir að við komum heim að hann var með lungnabólgu en er sem betur fer að jafna sig á henni núna, mjög vel var tekið á móti okkur og við fundum fyrir svo miklu þakklæti. Fólk var þakklátt fyrir að við leggðum á okkur að koma og afhenda gjafirnar, þrátt fyrir ástandið í landinu. Þakklátt fyrir að svo margir Íslendingar tækju þátt í þessu verkefni og sendu gjafir til ókunnugra. Þakklát fyrir brosið á andlitum barnanna vegna gjafanna frá ykkur.

Kæru þátttakendur í verkefninu Jól í skókassa enn og aftur takk fyrir að vera með okkur í þessu gefandi og fallega verkefni.

Guð blessi ykkur fyrir ykkar þáttöku

Mjöll, Herdís, Svanfríður og Inga

Hægt að skoða fleiri myndir frá ferðinni þeirra hér.

IMG_6313

Allir geta tekið þátt í að gleðja þennan stóra hóp barna. Nánari upplýsingar um verkefnið Jól í skókassa má finna á Facebook síðu hópsins eða á kfum.is.