J Ó L  Í  S K Ó K A S S A  2 0 1 3 – F E R Ð A S A G A

 

Þann 30. desember 2012 héldu fulltrúar verkefnisins til Úkraínu og lentu síðkvölds í Kiev. Í hópnum voru Björgvin Þórðarson, Herdís Hupfeldt, Ragnheiður Kristín Pálsdóttir og Svanfríður Elín Jakobsdóttir. Enn hafði ekki tekist að fá tollayfirvöld í Úkraínu til þess að opna gámana með skókössunum þótt pappírar hefðu verið tilbúnir um miðjan nóvember og gámarnir voru komnir á sinn stað í Kirovograd. Við fórum í þeirri von að á næstu dögum myndi rætast úr þessu. Kosningar voru nýafstaðnar í landinu og nefndin sem ákveður hvaða gámar skulu opnaðir hafði verið leyst upp í félagsmálaráðuneytinu eins lygilegt eins og það hljómar.

Hópurinn eyddi gamlárskvöldi í höfuðborginni og hélt þann 1.janúar 2013 áleiðis til Kirovograd héraðsins þar sem útdeila átti skókössunum. Lestin var óvenju nýstárleg og var okkur sagt að hún hefði verið keypt fyrir heimsmeistatamótið í fótbolta frá Suður-Kóreu. Við máttum heita að heppin að komast á leiðarenda en lestin er víst stöðugt að bila enda ekki byggð fyrir frosthörkur steppunnar. Faðir Evgenyi, tengiliður verkefnisins og yfirmaður KFUM&K í Úkraínu tók á móti okkur í Znamenka ásamt bílstjóra á GAZ bíl frá 1987. Leiðin lá beint að prestsetri hans í Subottsy þar sem ráðskonan Anna hafði eldað heimaslátraða önd og annað góðgæti.

 

2.1.13

Dagurinn byrjaði á nýbökuðum blini, heimagerðum sultum og hunangi. Engin tíðindi höfðu borist Föður Evgenyi um stimpilinn í Kiev. Við hringdum í ráðuneytið heima sem samþykkti að skrifa bréf í félagsmálaráðuneytið í Kiev til að ýta málinu áfram.

Novy

Faðir Evgenyi var með Plan B sem við fylgdum eftir, að kaupa nauðsynjar eins og þvottaefni og annað sem stofnanirnar höfðu beðið hann um. Ferðinni var heitið á geðsjúkrahús fyrir börn í bænum Novy. Starfsmenn útskýrðu að þar væru börn með geðklofa og fleiri intellectual limitations eins og það var orðað. Tvö munaðarlaus börn voru á deildinni en hin voru heima um hátíðirnar. Þar eru að jafnaði 30-45 börn og hefur Jól í skókassa keypt þvottavél og nýja glugga á spítalann. Við keyptum þvottaefni og sápur til að afhenda þeim. Konurnar sem tóku á mótu okkur tjáðu okkur að læknar og ómenntaðir starfsmenn fái sömu laun á spítalanum, €160 á mánuði.

 

Við fórum á barnadeild borgarspítalans í

 

Kirovograd og gáfum börnunum liti ogKöttur

 

teikniblokkir til að dunda sér með.

 

Starfsmaður í versluninni sem seldi okkur

 

litina var eftirminnilegur sem og símarnir á

 

deildinni. Sjúkrabíllinn fyrir utan var líka

 

fornfálegur en fallegur.

Símaborð

Sjúkrabíll

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næsta stopp var Nadia, heimili sem Jól í skókassa hefur sinnt mjög mikið gegnum árin. Verið er að gera upp húsið og hefur það víst tekið gríðarlegum breytingum síðustu ár. Við gáfum krökkunum sælgæti frá Góu og skoðuðum hvað hafði gerst á síðasta ári, nýjir gluggar og annað sem hafði verið endurnýjað.

Katya litla og sálfræðingurinn

Þetta heimili er skýli fyrir börn sem koma inn af götunni eða börn sem koma frá mjög erfiðum heimilisaðstæðum. Þar eru þau í 1-3 mánuði þar til önnur úrræði eru fundin. Þar hittum við litla Kötju, 5 ára sem félagsmálayfirvöld höfðu nýverið tekin frá mömmu sinni sem er í mikilli neyslu og var vannærð og dauf. Hún hafði verið krúnurökuð og var komin í hendur sálfræðings sem mun hjálpa henni.

 

 

Alls staðar var Föður Evgenyi og okkur tekið með opnum örmum og víða fagnaðarfundir. Þetta er níunda ár verkefnisins og faðir Evgenyi er þekktur í héraðinu fyrir verk sín og hjálpsemi. Margir þekktu líka Björgvin en þeir tveir áttu hugmyndina að samstarfinu.

 

3.1.13

Nú var Anna með kjöthlaðborð í morgunmat til að undirbúa okkur undir daginn. Við fórum í fangelsi fyrir síbrotamenn í Kirovograd og var hleypt þar inn eftir að faðirinn hringdi ótal símtöl.  Hann hefur ásamt öðrum prestum verið að hvetja fangana að stunda kapelluna í fangelsinu, til að fá hugarró og öðlast trú. Um 1000 fangar eru í fangelsinu en einungis 20-30 koma í litlu kirkjuna því það þykir veikleikamerki í fangamenningunni að snúa sér að guði. Fangelsið var nöturlegt en við fengum ekki að sjá verstu parta þess. Fangarnir gáfu okkur verk eftir sig, tálgaða muni sem þeir hafa dundað sér við að gera. Kapelluna hafa þeir einnig gert sjálfir. Ég talaði við einn mann sem fékk fjögurra ára dóm fyrir að stela tveimur reiðhjólum.

Réttvísin er ólíkindatól.

Fangelsi-Hópmynd

 

 

4.1.13

Við fengum upphringingu frá skrifstofu utanríkisráðherra sem vilja allt fyrir okkur gera. Þau eru komin í samband við ráðuneytið í Kiev. Þá eru embættismenn kirkjunnar, leyniþjónustan, íslenska utanríkisráðuneytið og sendiráð Finna í Kiev komnir í málið auk allra sem faðirinn var búinn að tala við.

 

Leiðin lá á þangað sem Vladimir, vinur Föðurins geymir gámana tvo með skókössunum 5363. Það eru jólagjafir til 5% munaðarlausra barna í Úkraínu en talið er að þau séu um 100.000 þótt tölur séu mjög á reiki og margir telji þau mun fleiri. 450 munaðarleysingjahæli eru í landinu. Við hófumst handa við að koma gjöfunum úr gámunum í geymslu þar sem er ekki raki. Okkur tókst að kría út leyfi til þess að taka nokkra kassa með okkur þrátt fyrir að réttur stimpill hefði enn ekki ratað heim til sín.

 

 

 

Við fórum svo aftur á Nadia með

 

kassana og færðum þeimNadia

 

langþráðan prentara sem beðið

 

hafði verið um. Börnin eru mjög

 

mismunandi á sig komin, mörg

 

vannærð og máttlaus, sum sterk og

 

glöð. Tólf börn voru á heimilinu en

 

þrettánda bættist við þegar við

 

komum með kassana.

Síðasta stopp þann daginn var munaðarleysingaheimilið í bænum Pantaivka. Þar eru 28 börn, mörg einhverf eða veik á einhvern hátt. Börnin kalla allar starfskonurnar mamma. Þau voru ekki öll heima þar sem sumum hafði verið boðið til útlanda í boði samtaka sem bjóða munaðarlausum börnum í heimsóknadvöl í Evrópulandi kringum hátíðirnar.

 

Pantaivka-1

Við settumst upp í GAZ bifreiðina og skröltum áleiðis til Subottsy úrvinda eftir daginn, ég dottaði afturí á meðan faðir Evgenyi og Björgvin lögðu á ráðin varðandi hvar og hvað skyldi styrkja en margar fyrirspurnir höfðu borist um aðstoð.

 

 

5.1.13

Nú var síðasti dagurinn runninn upp og þá var ferðinni heitið á munaðarleysingja-heimilið í Znamenka. Langflest munaðarlaus börn í Úkraínu eiga foreldra á lífi, þau eru félagslega munaðarlaus. Ýmislegt kemur til, í fyrsta lagi gamalt hugarfar um að barn sem fæðist með minnsta “galla”  andlegan eða líkamlegan skuli sett á stofnun. Þetta er löturhægt að breytast og fleiri vilja nú vera hjá börnunum sínum í stað þess að láta þau frá sér.

 

Í öðru lagi er skortur á félagslegu kerfi. Gríðarleg spilling og skortur á velferðarhugsun kemur í veg fyrir umbætur. Áfengis- og vímuefnaneysla foreldra er algengasta orsökin bakvið munaðarleysingja.

 

Í þriðja lagi eru afleiðingar Tsjérnobyl slyssins. Tugþúsundir  barna og fullorðinna með skjaldkirtilskrabbamein og önnur krabbamein, gat á hjartanu sem kallast Tsjérnobyl hjarta, vatnshöfuð, utanáliggjandi líffæri, alls kyns fjölfötlun og geðveiki fylla stofnanir í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vegna slyssins.

 

Björgvin hafði varað við því að Znamenka væri erfiðasta heimilið að heimsækja en það er mjög stórt og þar eru mikið veik börn, mörg afleiðingar Chernobyl.  Við fórum með banana til þeirra og var það mikil hátíð fyrir þau sem fengu því heimilið hefur ekki peninga til að kaupa ávexti. Börnin lifa mest á kássum og grautum.

Þau börn sem ekki eru stöðugt rúmliggjandi voru klædd í þjóðbúning og þeim var hóað saman í að syngja fyrir okkur. Faðirinn mótmælti þessu og bað þau ekki um að setja upp sýningu, við vildum heldur kynnast raunveruleikanum. Heimilið var vel búið af endurhæfingatækjum en okkur var sagt að þau kæmu frá styrktaraðilum í Kanada.  Ótal börn lágu í rúmunum sínum og liggja þar alla daga því átján börn eru á hvern starfsmann. Lítil sem engin umönnun, snerting eða örvun er fyrir þau veikustu. Ég fór til einnar stúlku með risastórt höfuð og líkama ungabarns. Ég sá á tönnunum á henni að hún var unglingur. Skyndilega gripu pínulitlu hendurnar hennar mína hönd og hún gaf til kynna að hún vildi láta taka sig upp að vera föðmuð. Því miður mátti ég ekki taka hana upp.

 

Stund milli stríða hjá Dísu

 

Að endingu hittum við fólk sem kom að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Meðal annars hittum við Viktoríu Tokovaya sem rekur “Hjarta móðurinnar” sem eru stuðningssamtök foreldra sem eiga veik börn og vilja annast þau sjálf, heima hjá sér. Vladimir sem geymir kassana var þarna en hann rekur eigin góðgerðarsamtök. Um nóttina vorum við keyrð á rútustöð þar sem við tókum rútu til Kiev. Við vorum í heildina ánægð með ferðina því mikilvægt er að koma og tala við fólk og styrkja tengslin. Það voru að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði að tapa stríðinu við skriffinnskuna. Flækjustigið var svo hátt að ég var búin að tapa þræði varðandi stimpla, embættismenn, nefndir og aðra hlutaðeigandi í málinu. Í lok janúar eru kassarnir enn í geymslu en þeim verður dreift af sjálfboðaliðum þegar stimpillinn kemst á sinn stað.

 

 

Fleiri myndir má sjá hér: http://www.flickr.com/photos/skokassar/sets/72157634080254241/

 

Reykjavík, janúar 2013

Ragnheiður Kristín Pálsdóttir

rkp@rkp.is